Innlent

Fjöldi glasafrjóvgana takmarkaður

Helga Arnardóttir skrifar
Fjöldi glasafrjóvgana á þessu ári verður takmarkaður vegna sparnaðaraðgerða. Sérfræðingur segir þetta þýða að biðlistar lengjast en nú þegar er sjö mánaða bið eftir slíkri meðferð. Þetta sé varhugaverð þróun en nú eru um tvö hundruð konur á biðlista.

Í byrjun árs 2008 gerðu Sjúkratryggingar Íslands samning við ARt medica um að ríkið myndi niðurgreiða 386 glasafrjóvgunarmeðferðir.

„Þá var ljóst að það myndi verða aukning á meðferðum með tilkomu nýrra laga seinna um vorið þess efnis að samkynhneigðar konur gætu gengist undir glasafrjóvgun. Fjöldi meðferða jókst þá umfram þennan umsamda kvóta," segir Guðmundur Arason sérfræðingur hjá Art Medica.

Árinu seinna jukust glasafrjóvganir enn meira þegar einleypum konum var leyft að gangast undir slíka meðferð. Árlega hafa verið gerðar um 450 glasafrjóvganir frá 2009. Umframfjöldinn var afgreiddur án teljandi vandræða og allir fengu niðurgreiðslu. Nú hefur því verið breytt og má fjöldinn ekki fara yfir 386 meðferðir þrátt fyrir innkomu samkynhneigðra og einhleypra kvenna. „Það gerir það að verkum að biðlistinn lengist og nú þegar er hann orðinn 7 mánuðir."

Guðmundur segir þetta gert í sparnaðarskyni og slíkt sé slæm þróun. ARt medica má ekki heldur gera fleiri glasafrjóvganir á konum sem tilbúnar eru að borga fullt verð fyrir slíka meðferð en hún kostar á bilinu þrjú til fjögur hundruð þúsund. Ríkið hefur niðurgreitt helming kostnaðar. Biðlistinn hefur lengst og bíða nú 200 konur eftir meðferð.

„Mér finnst alltaf sárt að sjá fólk sem þarf að bíða lengi eftir að komast í meðferð. Nú fer fólk að hugsa sig tvisvar um að hugsanlega fara erlendis í glasafróvgun þar sem það getur komist strax að," segir Guðmundur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×