Erlent

Heimsmet í strumpi

Mikið er strumpað þessa dagana, en Strumparnir frumsýna nýja þrívíddarmynd í sumar. 
Myndin hér að ofan er tekin á kvikmyndahátíðinni í Shanghai síðastliðinn sunnudag.
Mikið er strumpað þessa dagana, en Strumparnir frumsýna nýja þrívíddarmynd í sumar. Myndin hér að ofan er tekin á kvikmyndahátíðinni í Shanghai síðastliðinn sunnudag. Mynd/AP
Alþjóðlegi strumpadagurinn verður haldinn hátíðlegur laugardaginn 25. júní næstkomandi og mun þá samstillt átak tæplega 30 þjóða að öllum líkindum verða til þess að slá núverandi heimsmet í "strumpi".

Dagurinn er haldinn hátíðlegur um allan heim með ýmsum hætti en skapari Strumpanna, belgíski teiknimyndasöguhöfundurinn Pierre Culliford, betur þekktur sem Peyo, fæddist þennan dag árið 1928 og hefði því orðið 83 ára í ár.

Til þess að slá heimsmetið þurfa að minnsta kosti 2150 manns um allan heim að vera uppáklæddir sem strumpar á sama tíma en útsendarar frá Heimsmetabók Guinness verða í hverju landi til þess að tryggja að öll skilyrði séu uppfyllt.

Strumpabúningarnir mega ekki vera neitt hálfkák og eru strangar kröfur gerðar til að búningurinn sé samþykktur. Líkamsmálningin þarf til að mynda að vera rétti strumpablái liturinn; Pantone #32.

Löndin sem taka þátt í strumpinu eru: Bandaríkin, Belgía, Argentína, Bólivía, Brasilía, Kólumbía, Frakkland, Ekvadór, Þýskaland, Grikkland, Írland, Mexíkó, Holland, Panama, Perú, Pólland, Rússland, Úrúgvæ, Venezuela, England, Ástralía og Ítalía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×