Innlent

Fjórir vilja fá hvítabjörninn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hvítabjörninn sem var skotinn á Hornströndum í síðustu viku. Mynd/ Landhelgisgæslan.
Hvítabjörninn sem var skotinn á Hornströndum í síðustu viku. Mynd/ Landhelgisgæslan.
Fjórir aðilar hafa sent Náttúrufræðistofnun erindi þar sem óskað er eftir því að fá hvítabjörninn sem var skotinn á Hornströndum í síðustu viku til varðveislu. Þar af eru þrír aðilar á Vestfjörðum, eftir því sem fram kemur á vef Bæjarins besta.

Þessir aðilar eru Umhverfisstofnun fyrir gestastofu á Hornströndum, Núpur í Dýrafirði og Melrakkasetrið í Súðavík. Sá fjórði er í Fljótum í Skagafirði. „Það væri mjög gaman ef við fengum hann hingað til okkar," segir Jón Björnsson, forstöðumaður Hornstrandastofu aðspurður um málið.

Ferðaþjónustubóndinn og kokkurinn Guðmundur Helgi Helgason á Hótel Núpi segist hafa heyrt að aðili utan Ísafjarðarbæjar hafi sóst eftir að fá að geyma dýrið og því hafi þeir ákveðið að sækja um að varslan kæmi í þeirra hlut. „Við gátum ekki hugsað okkur að dýrið færi annað, hann var skotinn hér og á því að vera í Ísafjarðarbæ," segir Guðmundur í samtali við BB.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri Náttúrufræðistofnunar, segir að ekki verði tekin ákvörðun um vistun hvítabjarnarins fyrr en næsta vetur þegar hann verður stoppaður upp.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×