Erlent

Fjöldi barna látinn í árásum mannlausra flugvéla Bandaríkjamanna

Ómannaðar, fjarstýrðar flugvélar eru orðnar mikilvægt tól í bandaríska hernum.
Ómannaðar, fjarstýrðar flugvélar eru orðnar mikilvægt tól í bandaríska hernum.
Árásir mannlausra orrustuvéla Bandaríkjamanna í Pakistan gætu hafa kostað allt að 2.863 manns lífið samkvæmt rannsóknum breska fyrirtækisins The Bureau of Investigative Journalism. Þar af eru allt að 168 börn.

Lægsti mögulegi fjöldi látinna er samkvæmt rannsóknunum 2.292 manns, en þar af hafa um 385-775 verið óbreyttir borgarar. Samkvæmt opinberum tölum bandarískra stjórnvalda hafa hinsvegar töluvert færri fallið í árásum flugvélanna, eða um 2.050 manns. Þá er tala óbreyttra borgara sem látist hafa í árásunum einnig töluvert lægri samkvæmt Bandaríkjamönnum, eða um 50 manns.

Rannsókn The Bureau of Investigative Journalism byggir á um tvö þúsund fréttatilkynningum, skýrslum óháðra samtaka á svæðinu, leyndum skjölum bandarískra stjórnvalda og leyniþjónustunnar, og frásögnum vitna, blaðamanna, stjórnmálamanna og fyrrum leyniþjónunstumanna.

Bandarísk yfirvöld hafa gagnrýnt rannsóknina og segja aðferðafræðina og tölurnar sem hún byggir á vandkvæðum bundnar.

Alls hefur bandaríski herinn staðið fyrir 291 árás ómannaðra flugvéla frá árinu 2004. Af þeim sem fallið hafa í árásunum hafa 126 verið nafngreindir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×