Erlent

Þýski Jack Sparrow höfðar mál gegn Disney

Johnny Depp í hlutverki Jack Sparrow
Johnny Depp í hlutverki Jack Sparrow Mynd úr safni
Marcus Off, sem ljáði Johnny Depp rödd sína sem Jack Sparrow í Pirates of the Caribbean-myndunum í Þýskalandi, hefur höfðað mál gegn kvikmyndafyrirtækinu Disney. Hann segir að framlag hans til myndanna hafi verið vanmetið.

Marcus krefst þess að fá 180 þúsund evrur fyrir þýsku útgáfurnar af myndunum þremur sem er um tíu sinnum meira en hann fékk frá Disney.

„Að tala inn á myndir er ekkert annað en að leika, það er ósköp einfalt, jafnvel þó þú heyrir bara röddina mína,“ segir Marcus sem er landsþekktur í Þýskalandi fyrir að tala inn á frægar Hollywood-myndir.

Macus segir að velgengni myndanna í Þýskalandi megi þakka framlagi hans, en áætlað er að 19,5 milljónir Þjóðverja hafi séð myndirnar. Marcus fékk rúmlega 9.500 evrur fyrir hlutverk sitt í myndum þremur auk þess að fá 8.500 evrur fyrir sérstaka DVD-útgáfu. Það er töluvert meira en gengur og gerist í þessum bransa í Þýskalandi.

Disney hafnar þessum kröfum Marcusar og telur að hann hafi fengið greitt samkvæmt samningum sem voru gerðir við hann.

Hvort dómari fallist á það verður að koma í ljós.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×