Erlent

Meiri líkur á hjartaáfalli hjá konum sem reykja en körlum

Konur sem byrja að reykja auka líkurnar á hjartafalli meira en karlmenn sem taka upp ósiðinn, þrátt fyrir að reykja yfirleitt minna.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu þar sem notast var við fjölmargar rannsóknir sem gerðar hafa verið á síðustu fjörutíu árum og ná til rúmlega tveggja milljóna manna. Ástæðan fyrir þessu er enn ókunn en í læknablaðinu Lancet segir að 25 prósenta munur sé á körlum og konum þegar komi að þessari auknu áhættu. Líffræðilegur munur á kynjunum gæti orsakað það að konur séu berskjaldaðri fyrir hjartasjúkdómum en þá er einnig talið mögulegt að konur reyki einfaldlega á annan hátt en karlar. Þannig gætu þær tekið inn meira magn af þeim efnum í sígarettum sem leiði til hjartasjúkdóma en karlar.

Bresku hjartaverndarsamtökin segja niðurstöðurnar sláandi, sérstaklega ef litið er til þess að konur reykja yfirleitt minna en karlar. Rúmlega sjö milljónir manna deyja árlega af völdum hjartasjúkdóma í heiminum og er þetta algengasta dánarorsökin í dag. Hjartasjúkdómar eru mikið til raktir til óheilbrigðs lífernis og eru reykingar einn helsti orsakavaldurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×