Innlent

Frumvarp um fiskveiðistjórnun lagt fram í næsta mánuði

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra.
Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra.

Jón Bjarnason, sjávarútvegsráðherra, hyggst leggja fram frumvarp um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu í næsta mánuði.

Starfsmenn sjávarútvegsráðuneytisins vinna nú að gerð frumvarpsins en samkvæmt heimildum fréttastofu er sú vinna langt komin. Sérstakur þingmannahópur hefur einnig komið að þessari vinnu en búist er því að frumvarpið verði tilbúið eftir hálfan mánuð.

Björn Valur Gíslason, þingmaður, er fulltrúi vinstri grænna í þingmannahópnum. Hann segir mikilvægt að byggja á niðurstöðum sáttanefndarinnar um samningaleiðina.

Samkvæmt heimildum fréttastofu stendur til að stækka byggðakvóta verulega eða upp í allt 20 prósent af heildarafla hvers árs. Deilt er um hvernig skal ráðstafa þessum kvóta, það er að segja hvort það verði ráðherra eða sveitarfélögin sjálf.

Þá er einnig til skoðunar að binda nýtingarétt við 15 til 20 ár. Er þá miðað við að kvótahöfum verði gert að greiða sérstakt leigugjald fyrir kvóta.

Þá hefur það einnig verið rætt um að setja alla aflaaukningu á markað þannig að hún renni ekki beint til núverandi kvótahafa. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur ekki náðst sátt um þetta atriði.

Björn hefur gagnrýnt stefnu samfylkingarinnar í þessu máli og telur mikilvægt að miða við skýrslu sáttanefndarinnar. Ennfremur segir hann mikilvægt að vinna málið í sátt.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×