Erlent

Forseti Tékklands gagnrýnir fyrstu Gay Pride gönguna þar í landi

Václac Klaus, forseti Tékklands, segir reginmun á því að þola eitthvað annars vegar, og gefa því opinberan stuðning hinsvegar.
Václac Klaus, forseti Tékklands, segir reginmun á því að þola eitthvað annars vegar, og gefa því opinberan stuðning hinsvegar. Mynd/Getty
„Ég finn ekki til stolts vegna þessa viðburðar“ segir Václac Klaus, forseti Tékklands, í yfirlýsingu á vefsíðu sinni um fyrstu Gay Pride gönguna sem haldin verður í höfuðborginni Prag á morgun. „Það er eitt að þola eitthvað, en það er allt annað að gefa því opinberan stuðning í nafni mikilvægrar stofnunar.“

Þrettán erlend sendiráð í Tékklandi gáfu síðastliðinn föstudag út sameiginlega yfirlýsingu þar sem þau lýstu yfir stuðningi við gönguna. Klaus hefur gagnrýnt yfirlýsinguna og segir hana vera tilraun sendiráðanna til að hafa áhrif á pólitíska umræðu í landinu.

Var forsetinn þá að vísa til þess að borgarstjórinn í Prag var gagnrýndur harðlega í síðustu viku fyrir að hafa opinberlega stutt viðburðinn, en varaskrifstofustjóri forseta lagði það til við borgarstjórann að hann segði af sér vegna málsins.

Forsetinn hefur neitað að taka afstöðu gegn ummælum starfsmanns síns og ítrekar í skrifum sínum muninn á því að virða samkynhneigð og að auglýsa „hómósexúalisma“. Gleðigangan sem áætluð er í Prag sé dæmi um slíkan „hómósexúalisma“, og það segir hann að valdi sér miklum áhyggjum.

Václac Klaus beitti neitunarvaldi sínu á lög um staðfesta samvist árið 2006.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×