Erlent

Lögmenn kalla á breyttar áherslur

Danskir lögmenn gagnrýna að efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar skuli ekki efld. 
Nordicphotos/AFP
Danskir lögmenn gagnrýna að efnahagsbrotadeild dönsku lögreglunnar skuli ekki efld. Nordicphotos/AFP

Fjöldi mála sem vísað er til efnahagsbrotadeildar dönsku lögreglunnar verður að engu þar sem hún hefur ekki mannafla til að sinna auknum málafjölda. Þetta kemur fram í danska viðskiptablaðinu Børsen.

Blaðið hefur þetta eftir mörgum reyndustu gjaldþrotalögfæðingum landsins, en gjaldþrotum, sér í lagi á fasteignamarkaði, hefur fjölgað mjög í Danmörku síðustu misseri. Lögmennirnir kalla eftir því að stjórnmálamenn beiti sér fyrir því að stutt verði betur við efnahagsbrotadeildina.

Haft er eftir Pernillu Bigaard, formanni Landssambands danskra skiptalögfræðinga, að hún hafi verulegar áhyggjur af því hversu erfiðlega gangi að hafa hemil á fólki sem grunað sé um gróf efnahagsbrot vegna tafa hjá lögreglu. „Og um leið horfum við upp á að gjaldþrota einstaklingar viðhalda lifnaðar­háttum sem ekki ríma við persónulegt gjaldþrot þeirra,“ segir hún.

Blaðafulltrúi danska dómsmálaráðuneytisins bendir á að lögreglan hafi heimildir til þess að ákveða sjálf ráðstöfun fjármuna til ólíkra málaflokka. Um leið viðurkennir Jens Madsen, yfirmaður efnahagsbrotadeildarinnar, að mikið álag sé á deildinni. „Ég get staðfest að við höfum aldrei áður haft jafnmörg mál á okkar könnu og að á því tímabili sem aukningin hefur átt sér stað hafa fjárheimildir okkar ekki verið auknar,“ segir hann við Børsen.- óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×