Erlent

Tvö hundruð þúsund hafa flúið heimili sín

Flóðin hafa haft áhrif á um tvö hundruð þúsund manns í Queensland. Nordicphotos/afp
Flóðin hafa haft áhrif á um tvö hundruð þúsund manns í Queensland. Nordicphotos/afp

Ástralía, AP Rúmlega fertug kona lést þegar flóðbylgja skall á bíl hennar í vesturhluta Queensland fylkis í Ástralíu á laugardag. Lík konunnar fannst um tveimur kílómetrum frá veginum.

Rigningar síðustu viku hafa leitt til mikilla flóða í norðaustur­hluta Ástralíu og haft áhrif á um tvö hundruð þúsund manns á svæði sem er stærra en Frakkland og Þýskaland samanlagt.

Embættismenn í Queensland töldu að flóðin hefðu gengið yfir helming lands fylkisins. Stytt hefur upp en vatnsborð áa heldur þó áfram að hækka. Þá var miklu þrumuveðri var spáð í sunnanverðu Queensland-fylki seint í gær.

Alistair Dawson, settur aðstoðar­lögreglustjóri í Queensland, sagði að mánuður gæti liðið þangað til landið sem flóðin gengu yfir yrði þurrt á ný. Hann bætti við að um þúsund manns byggju í hjálpar­miðstöðvum víða um fylkið. „Það er erfitt að segja til um hvort það versta sé að baki. Þetta er einstakur atburður."

Anna Bligh, forsætisráðherra Queensland, sagði í gær að hreinsunaraðgerðir gætu kostað milljarða dala.- mmf






Fleiri fréttir

Sjá meira


×