Innlent

Byssumennirnir fjórir verða áfram í haldi

Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í fyrradag.
Mennirnir voru leiddir fyrir dómara í fyrradag.
Fjórir karlmenn sem tóku þátt í skotárás í Bústaðahverfi á aðfangadag hafa verið úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald til 15. febrúar. Einn þeirra kærði úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur Hæstaréttar. Ríkissaksóknari mun á næstu dögum gefa út ákæru á hendur þeim.

Mennirnir voru handteknir eftir skotárásina og hafa játað aðild sína að málinu. Þeir eru á þrítugs- og fertugsaldri og hafa allir áður komið við sögu hjá lögreglu.

Málsatvik voru þau að tveir karlmenn komu að húsi í Bústaðahverfi á aðfangadagsmorgun. Virtust þeir eiga eitthvað vantalað við húsráðandann. Kom til átaka en mennirnir héldu síðan á brott. Þeir sneru svo aftur að húsinu um hádegisbil ásamt tveimur öðrum mönnum og höfðu þá jafnframt haglabyssu meðferðis. Tveimur skotum var hleypt af haglabyssunni og höfnuðu þau bæði í útidyrahurð en byssan var einnig notuð til að brjóta rúðu í húsinu.

Engan sakaði því heimilisfólkið hafði forðað sér út bakdyramegin áður en skotið var á húsið. - jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×