Erlent

Fimm látnir í mótmælunum í Egyptalandi

Mótmælin í Egyptalandi verð æ ofbeldisfyllri.
Mótmælin í Egyptalandi verð æ ofbeldisfyllri. Mohammed Abed/AFP

Mótmælendur í Egyptalandi saka stjórnvöld um að senda óeinkennisklædda lögreglumenn og málaliða inn á Frelsistorgið í gær til að hleypa upp mótmælunum. Fimm hafa fallið og yfir sex hundruð særst í átökum mótmælenda og stuðningsmanna forsetans frá því í gær.

Andstæðingar og stuðningsmenn Hosni Mubaraks forseta börðust um yfirráðin yfir Frelsistorginu í gærkvöldi og alla nótt. Að minnsta kosti fimm manns liggja í valnum og yfir sexhundruð manns eru særðir. Nokkur dæmi eru um að menn hafi ætlað að kasta molatof-kokteilum en kveikt í sjálfum sér í staðinn fyrir slysni.

Hópar sem styðja Mubarak forseta gerðu áhlaup á mótmælendur á Friðartorginu en í gær riðu þeir meðal annars á hestum og kameldýrum inn á torgið.

Frelsistorgið er orðið táknrænt í atburðunum í Egyptalandi og báðir aðilar leggja mikla áherslu á að ná yfirráðum yfir því. Mótmælendur saka stjórnvöld um að greiða málaliðum fyrir að ráðast á mótmælendur og segjast hafa náð lögregluskírteinum af óeinkennisklæddum lögreglumönnum sem hafi tekið þátt í árásum á mótmælendur. En þótt herinn hafi að mestu haldið sér til hlés og lýst því yfir að hann muni ekki beita almenning valdi, verður að hafa í huga að eiræðisstjórnin í Kairó er vel þjálfuð í undirróðursstarfsemi og kann sitthvað fyrir sér í fantabrögðum.

Og skömmu fyrir hádegi greip herinn til aðgerða og stillti sér upp á milli stríðandi fylkinga til að enda átökin á milli þeirra. Þá berast fréttir af því að Mohammed ElBaradei muni funda með leiðtogum stjórnarandstöðuflokka og fulltrúum stjórnvalda í dag.

Heyra mátti byssuhvelli við torgið í nótt og snemma í morgun og af þeim fimm sem hafa fallið féllu þrír í þessum skotárásum. Herinn hefur umkringt torgið og í raun lokað aðgangsleiðum fólks að torginu. Ríkisstjórnir Þýskalands, Frakklands og Bretlands hafa sameiginlega sent frá sér yfirlýsingu þar sem ofbeldisverk í tengslum við mótmælin eru fordæmd og skorað er á stjórnvöld í Egyptalandi að hefja nú þegar valdaskipti í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×