Innlent

Ingi Freyr krefst ómerkingar tíu ummæla Agnesar

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson
Segir afsökunarbeiðni í Morgunblaðinu óásættanlega.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson Segir afsökunarbeiðni í Morgunblaðinu óásættanlega.

Ingi Freyr Vilhjálmsson, fréttastjóri á DV, krefst þess að tíu ummæli í fréttum sem Agnes Bragadóttur skrifaði í Morgunblaðið um málefni njósnatölvunnar á Alþingi verði dæmd dauð og ómerk.

Þá hefur Ingi jafnframt stefnt Agnesi til að greiða sér tvær milljónir króna í miskabætur vegna fréttaflutningsins.

Agnes lét að því liggja í skrifum sínum að Ingi hefði fengið ungan mann undir lögaldri til að stela fyrir sig gögnum úr tölvum gegn þóknun og staðhæfði að hann hefði stöðu grunaðs manns í lögreglurannsókn á því máli. Þá var lögregla sögð rannsaka hvort maðurinn ungi sem grunaður er um þjófnaðinn tengdist máli njósna­tölvunnar, meðal annars vegna meintra tengsla hans við Wikileaks og Inga Frey.

Lögmaður Inga Freys, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, gaf Agnesi og Morgunblaðinu frest til klukkan fjögur síðdegis á mánudag, daginn sem umrædd frétt birtist, til að leiðrétta hana, biðjast afsökunar og greiða milljón króna í miskabætur.

Morgunblaðið baðst í gær velvirðingar á missögnum í fréttinni en Vilhjálmur segir þá leiðréttingu allsendis ófullnægjandi.

Agnes var skrifuð fyrir fréttinni með fullu nafni og segir Vilhjálmur að hún beri því ein ábyrgð á fréttinni. Henni verður af þeim sökum einni stefnt í málinu. Auk framangreindra atriða verður þess krafist að Agnes verði dæmd til refsingar sem getur numið allt að tveggja ára fangelsi, til að greiða hálfa milljón í birtingarkostnað á dómnum, auk þess sem Morgunblaðinu verði gert að birta dóminn.

Málið verður að óbreyttu þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á þriðjudag. - jss






Fleiri fréttir

Sjá meira


×