Innlent

Segir ríkisstjórnina halda aftur af Landsvirkjun

Kristján Þór Júlíusson. Mynd/ GVA.
Kristján Þór Júlíusson. Mynd/ GVA.

Landsvirkjun dregur lappirnar við atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum þar sem ríkisstjórnin heldur aftur af henni, segir oddviti sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi, Kristján Þór Júlíusson. Hann hvetur nafna sinn, Kristján Möller, formann iðnaðarnefndar Alþingis, að sýna vilja sinn í verki með því að hætta að tefja þingsályktunartillögu um framgang málsins.

Kristján L. Möller, oddviti Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi orðið brýnt að hefja atvinnuuppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Svo vill til að Kristján Möller er í hópi 25 þingmanna sem standa að þingsályktunartillögu þar sem ríkisstjórninni er beinlínis falið að hefja viðræður við tvö álfyrirtæki, Alcoa og Bosai, um uppbyggingu við Húsavík. Tillagan hefur legið inni í iðnaðarnefnd Alþingis frá því í nóvember en formaður hennar er einmitt Kristján Möller.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar, Kristján Þór Júlíusson, segir málið hafa legið allt of lengi í nefndinni og kominn sé tími til að koma því inn í þingið og ljúka því þar. Hann hvetur nafna sinn, Kristján Möller, nú til að sýna vilja sinn í verki með því að afgreiða málið úr nefndinni.

"Þetta eru greinilega pólitískar línur og átök sem krystallast í þessari töf sem þarna hefur orðið," segir Kristján Þór.

"Við vitum það að Landsvirkjun hefur verið að draga við sig lappirnar í ljósi þess að eigandi hennar, sem er ríkisvaldið, hefur frekar haldið aftur af fyrirtækinu í því að byggja upp þessa atvinnustarfsemi, sem um ræðir. Það vantar einfaldlega skýrari fyrirmæli frá eiganda Landsvirkjunar til fyrirtækisins, sem allir landsmenn eiga, um að það eigi að leggja sig fram um þessa atvinnuuppbyggingu," segir Kristján Þór.

Tengill:

Tillaga til þingsályktunar um atvinnuuppbyggingu og orkunýtingu í Þingeyjarsýslum.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×