Innlent

Ólafur Ragnar fundaði með Bill Clinton

Þorbjörn Þórðarson í New York skrifar
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Bill Clinton á fundinum í gærkvöldi. Ólafur Ragnar sagði að forsetinn fyrrverandi blómstraði af hressleika og heilbrigði.
Ólafur Ragnar Grímsson ásamt Bill Clinton á fundinum í gærkvöldi. Ólafur Ragnar sagði að forsetinn fyrrverandi blómstraði af hressleika og heilbrigði.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands átti einkafund með Bill Clinton fyrrverandi Bandaríkjaforseta í New York í gærkvöldi. Hann segir Íslendinga eiga góðan liðsmann í forsetanum fyrrverandi. 

„Þetta var bæði fróðlegur og skemmtilegur og reyndar efnisríkur fundur eins og jafnan þegar maður hittir Bill Clinton. Hann í mjög fínu formi og gaman að sjá að hann lítur mun betur út en hann gerði fyrir nokkrum árum síðan. Hann hefur greinilega tekið sig á þegar kemur að heilsunni og hann var fullur af orku og hugmyndum. Það var gaman að sjá hvað hann blómstrar og geislar af heilbrigði og hressleika," segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í New York, en forsetinn fundaði með Bill Clinton í borginni í gærkvöldi. Ólafur Ragnar er í borginni vegna ráðstefnu sem var í gær á Carlton-Ritz hótelinu um fjármögnun jarðhitaverkefna og nýtti tækifærið til að ræða við Clinton síðar um kvöldið.

„Hann hefur fylgst mjög náið með þróun mála á Íslandi og sýnt okkur vinsemd. Honum þótti merkilegt hvað við Íslendingar værum að komast snemma út úr fjármálakreppunni í samanburði við margar þjóðir Evrópu."

Sýnir íslenskum rannsóknum mikinn áhuga

"Við ræddum um hreina orku og hann hvatti okkur Íslendinga til að taka þátt í verkefnum á því sviði víða um heim. Það tengist því auðvitað hvað hann hefur verið virkur í umræðunni um loftlagsbreytingar. Hann hefur sýnt rannsóknum sem Íslendingar hafa framkvæmt á jöklum og afleiðingum loftslagsbreytinga mikinn áhuga. Þá hefur Clinton mikinn áhuga á þeirri lykilstöðu sem Ísland gæti orðið í vegna hlýnunar á Norðurslóðum þegar nýjar siglingaleiðir opnast milli Asíu og Evrópu og Ameríku," segir Ólafur Ragnar.

Forsetinn segir að Bill Clinton vilji að Bandaríkjamenn séu virkir í málefnum Norðurslóða, en þeir tveir hafi sérstaklega rætt í gærkvöldi aukinn áhuga Kínverja og Rússa á svæðinu og mikilvægi þess að Bandaríkin gerðu sig gildandi. „Þá ræddum við málefni Egyptalands og atburðina í Miðausturlöndum."

Ólafur Ragnar segir að Íslendingar eigi góðan liðsmann í Bill Clinton. „Það sem var ánægjulegast var að heyra mikinn áhuga á Íslandi og málefnum Íslendinga. Við eigum góðan liðsmann í honum. Velvilji hans í okkar garð er mikill." thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×