Innlent

Óttast um fagleg sjónarmið í skólum

Fyrirhuguð hagræðing í skólastarfi Reykjavíkurborgar hefur valdið nokkrum úlfaþyt þar sem óljósar hugmyndir um sameiningu eða samrekstur stofnana hafa mætt töluverðri andstöðu meðal starfsfólks, stjórnenda og foreldra.

Borgarráð skipaði starfshóp í lok síðasta árs sem átti að "skoða og greina þau tækifæri sem kunna að vera til staðar til endurskipulagningar og/eða sameiningar leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila í borginni" og eru margir uggandi um niðurstöður. Gagnrýnisraddirnar hafa aðallega beinst að upplýsingagjöf í hugmyndavinnuferlinu og áhyggjum af því hvort fagleg sjónarmið séu látin víkja fyrir kröfum um sparnað.

Forsvarsmenn meirihlutans í borgarstjórn hafa lagt áherslu á að enn hafi ekkert verið ákveðið. Enn sé verið að safna hugmyndum og greina áður en lengra verður haldið.

Málið var til umræðu í menntaráði í gær þar sem framkomnar hugmyndir voru meðal annars lagðar fyrir ráðið, en þær hafa ekki verið gefnar út opinberlega.

Hvers er að kvíða?

Áhyggjuefnin í þessu máli eru margvísleg. Þau eru allt frá áhyggjum af því hvort verið sé að sverfa of nærri þjónustu við börn og faglegur ávinningur verði takmarkaður, upp í tilfinningaleg rök þar sem fólk hefur áhyggjur af afdrifum "sinna skóla" og sérstöðu þeirra.

Fjölmörg einstök foreldrafélög leikskóla og grunnskóla borgarinnar hafa ályktað gegn niðurskurði í skólamálum og stjórnendur í skólunum telja að breytingarnar geti jafnvel orðið skaðlegar fyrir starf skólanna.

Upplýsingaflæði gagnrýnt

Fulltrúi Vinstri grænna í menntaráði, Líf Magneudóttir, gagnrýndi verkferli málsins í viðtali við Fréttablaðið í gær. Hún sagði menntaráð ekki hafa fengið að fylgjast nægilega vel með sameiningarhugmyndunum.

Oddný Sturludóttir, formaður menntaráðs og starfshópsins umrædda, sagði hins vegar að umfjöllun menntaráðs um málið í gær hafi verið "á eðlilegum tíma" þar sem hópurinn hafi verið skipaður af borgarráði.

Líf segist hafa verið litlu nær eftir fundinn í menntaráði í gær.

„Það má segja að þar hafi vaknað fleiri spurningar en svör."

Hún lagði fram bókun þar sem vinnubrögð meirihlutans eru sögð hroðvirknisleg og einkennast af „virðingarleysi við fagstéttir, foreldra og börnin í borginni".

Þar segir einnig að enn liggi ekki fyrir svör um fjárhagslegan eða faglegan ávinning af aðgerðunum. Er svo skorað á meirihlutann að endurskoða forgangsröðun sína.

„Það er augljóst að meirihlutinn er bara að hugsa um krónur og aura í stað þess að forgangsraða í þágu barnanna," segir Líf.

Foreldrar ósáttir

Edda Björk Þórðardóttir er formaður Barnanna okkar, samtaka foreldrafélaga leikskóla í Reykjavík, og hún segir samtök sín hafa miklar áhyggjur af framvindunni, ekki síst þar sem upplýsingagjöf um hugmyndir til sameininga hafi verið af skornum skammti. Samtökin taki undir áhyggjur fagaðila vegna fyrirhugaðra breytinga.

„Það sem við heyrum frá fagaðilum er að þessar sameiningar muni ekki skila faglegum ávinningi. Við í stjórninni deilum þeim áhyggjum og höfum líka áhyggjur af framtíð leikskólanna."

Fulltrúar SAMFOKs, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, lögðu fram bókun á fundi menntaráðs í gær þar sem þau leggja áherslu á að áður en ákvarðanir verða teknar um sameiningar eða samrekstur, verði fagleg og fjárhagsleg áhrif metin.

„Ekki er ásættanlegt að faglegu starfi, líðan starfsmanna og barna sé stefnt í voða að ástæðulausu. Hagræðingin þarf að vera augljós og án fórnarkostnaðar við faglegt starf," segir í bókuninni.

Stjórnendur uggandi

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, gagnrýnir, í samtali við Fréttablaðið, að ferlið hafi verið í óvissu of lengi. Sameiningar séu, þess utan, ekki eina leiðin sem fær er til að auka samvinnu.

„Það er fullt til af skemmtilegum möguleikum á samvinnu í skólastiginu. Það er hægt að efla samvinnu milli skólastiga á allan mögulegan hátt án þess að fækka stjórnendum. Stjórnendur standa skólastafi ekki fyrir þrifum, heldur eru þeir máttarstólpar."

Ingibjörg segir stjórnendur óttast að fækkun í þeirra hópi muni veikja innra starf skólanna. Þá geti það orðið til þess að letja menntaða leikskólakennara til að sækja í vinnu á leikskólum.

„Fækkun stjórnendastaða verður til þess að möguleikar á framgangi í starfi minnka og það gerir starf hjá Reykjavíkurborg ekki fýsilegra. Svo er lægð í náminu á menntavísindasviði og okkur finnst þetta ekki vera til að hvetja ungt fólk til náms."

Fulltrúi félags skólastjórnenda í Reykjavík á fundi menntaráðs lagði fram bókun þar sem lýst var yfir óánægju skólastjórnenda í borginni um framgang málsins, upplýsingagjöf og samráð við foreldra og starfsfólk.

Þar segir meðal annars: „Verulega hefur skort á að forsendur, bæði faglegar og fjárhagslegar liggi fyrir þannig að unnt sé fyrir viðkomandi aðila að taka afstöðu til hugmyndanna á faglegum forsendum."

Að mati skólastjórnenda hefur framsetning málsins skapað óvissu og ólgu í kringum skólastarfið.

Að lokum lagði fulltrúi félagsins fram tillögu um að framkomnar hugmyndir um sameiningar og samrekstur í skólum borgarinnar komi ekki til framkvæmda í ár.

Oddný Sturludóttir segir hins vegar ekkert launungamál að takmarkið með þessari vinnu hafi verið að ná fram hagræðingu, en líka að standa vörð um skóla og frístundastarf til framtíðar.

„Það eru tækifæri í meira samstarfi skóla og sameiningum sem og samþættingu skóla og frístundastarfs."

Oddný bætir því við að gagnrýni á hugmyndirnar hafi ekki komið henni mjög á óvart.

„Okkur þykir vænt um skólana okkar og frístundastarfið og þegar við erum að ræða svona breytingar á opinn hátt við marga borgarbúa er ekkert eðlilegra en að nokkur óvissa skapist."

Í framhaldi af fundinum í gær verður staða mála kynnt fyrir borgarráði í dag, en eftir það tekur við nánari greiningarvinna.

„Þar munum við greina betur þær hugmyndir sem við teljum þess eðlis að við náum fjárhagslegum ávinningi til þess að geta varið skóla- og frístundastarfið með kjafti og klóm."

Áætlað er að starfshópurinn ljúki störfum fyrir lok febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×