Innlent

Dýralæknar selja lyf yfir leyfilegu verði

Mynd úr safni / Vilhelm

Lyfjaverð hjá dýralæknum er of hátt að mati Lyfjastofnunar. Samkvæmt nýrri könnun stofnunarinnar selur stór hluti dýralækna lyf yfir leyfilegu verði.

Bændablaðið fjallar í dag um könnun sem Lyfjastofnun gerði á lyfjaverði hjá dýralæknum.

Í ljós kom að fjórir dýralæknar af fimm, sem verð var kannað hjá á höfuðborgarsvæðinu, höfðu selt lyf yfir leyfilegu verði samkvæmt gildandi lyfjaverðskrá.

Við verðeftirlit hjá lyfjasölum dýralækna á Norðurlandi um miðjan desember kom einnig í ljós að í fjórum tilvikum af fimm höfðu lyf verið seld á hærra verði en leyfilegt var.

Óheimilt er að selja lyf á hærra verði en tilgreint er í gildandi lyfjaverðskrá.

Lyfjagreiðslunefnd hefur ein heimild til að ákvarða hámarksverð á lyfjum.

Ástæða þess að verð var kannað með þessum hætti er sú að margar kvartanir höfðu borist frá bændum og dýraeigendum.

Lyfjastofnun hyggst gera fleiri samskonar verðkannanir vegna þessa máls.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×