Innlent

Skip koma sérstaklega til Íslands til að sækja þýfi

Fréttir af afkastamiklum þjófagengjum hafa verið áberandi í fjölmiðlum undanfarið. Hver innbrotahrinan hefur rekið aðra og fólk hefur orðið vart við dularfulla menn, sem taka ljósmyndir af húsum þegar enginn er heima.

Talið er, að þar sé um að ræða menn, sem eru að undirbúa innbrot. Lögreglan hefur haft á orði, að þjófarnir séu skipulagðari en áður og að þeir einbeiti sér að verðmætari hlutum til að stela. Þessi afkastamiklu þjófagengi, sem upprætt hafa verið nú á síðustu dögum, eru alíslensk að því er virðist, en oft hefur því verið haldið fram að útlendingar standi á bak við glæpi af skipulögðum toga, hér á landi.

Hvert fer þýfið?

En hvað verður um allt þetta þýfi? Hvernig koma þjófarnir því í verð? Vísir ræddi við greiningardeild Ríkislögreglustjóra til að glöggva sig á þessari hlið undirheimanna.

,,Þetta er góð spurning" segir Ásgeir Karlsson yfirmaður greiningardeildar Ríkislögreglustjora. ,,Ef við vissum svarið myndum við koma í veg fyrir þetta. Það eru ýmis viðskipti sem fara fram í undirheimunum og viðskipti með þýfi eru hluti af þeim. Það er þekkt að þýfi er notað sem gjaldmiðill í fíkniefnaviðskiptum og til greiðslu fíkniefnaskulda. Við vitum einnig til þess að þýfi sé flutt út og selt erlendis, með skipulögðum hætti, og þá er jafnvel safnað í gáma" bætir Ásgeir við. Leiða má að því líkum að það sé gert til til að lækka flutningskostnað.

Skip sækja þýfið

Heimildarmaður Vísis, sem þekkir vel til í undirheimum Reykjavíkur, staðfestir þetta og fullyrðir að þetta fari allt úr landi og þá jafnvel með sérstökum ferðum. ,,Það koma hérna skip og bátar sérstaklega til að sækja þennan varning. Þetta fer allt út", bætir hann við, ,,allt þetta verðmæta. Það er enginn svo steiktur í hausnum að hann fari að reyna að selja þetta í Kolaportinu eða á netinu" segir heimildarmaðurinn úr undirheimunum að lokum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×