Erlent

Loughner ákærður fyrir banatilræði

Jared Loughner.
Jared Loughner. MYND/AP

Bandarísk alríkisyfirvöld hafa ákært manninn sem skaut sex til bana í Túson í Arizóna á laugardag. Hinn 22 ára gamli Jared Loughner hefur verið ákærður fyrir að reyna að myrða þingkonuna Gabrielle Giffords og fyrir að myrða tvo aðra opinbera starfsmenn.

Auk þeirra létust fjórir aðrir í árásinni, þar á meðal níu ára gömul stúlka. Giffords, sem talin er hafa verið aðal skotmark Loughners er hins vegar enn á lífi en hann skaut hana í gegnum höfuðið af stuttu færi. Loughner kemur fyrir rétt í dag þar sem honum verður birt ákæran en hann gæti átt yfir höfði sér dauðadóm.

Fjórtán aðrir slösuðust í árásinni en maðurinn var vopnaður hálfsjálfvirkri skammbyssu. Búist er við ákærum á hendur honum fyrir hina sem hann skaut á næstu dögum. Við húsleit á heimili mannsins fannst bréf þar sem fram kemur að hann hafi skipulagt árásina á Gifford en hann er talinn hafa tengs við bandarísk samtök þjóðernisöfgamanna og kynþáttahatara. Í fyrstu var talið að hann ætti sér vitorðsmann sem var leitað en nú hefur það verið útilokað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×