Innlent

HÍ bakhjarl Nýsköpunarkeppni grunnskólanna

Samkomulagið var handsalað í vikunni en Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, og Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, rituðu undir samninginn.
Samkomulagið var handsalað í vikunni en Jón Atli Benediktsson, aðstoðarrektor vísinda og kennslu við Háskóla Íslands, og Anna Þóra Ísfold, framkvæmdastjóri Nýsköpunarkeppni grunnskólanna, rituðu undir samninginn.
Háskóli Íslands verður bakhjarl Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Í tilkynningu frá skólanum segir að meginmarkmiðið með þáttökunni sé að efla nýsköpunarstarf barna og unglinga í grunnskólum landsins. Einnig er áformað að efla þverfaglega þátttöku ólíkra fræðasviða skólans og stuðla þannig að uppbyggingu nýsköpunarmenntunar í landinu.

„Háskóli Íslands mun styðja við Nýsköpunarkeppni grunnskólanna með því að leggja til kennara, starfsfólk og nemendur sína í matsferli keppninnar. Þá mun Háskólinn leggja til leiðbeinendur í vinnusmiðju og fulltrúa í verðlaunanefnd. Auk þess styður skólinn keppnina með fjárframlagi og í tilefni aldarafmælisins verður 10 stigahæstu keppendunum í ár veitt gjafabréf í Háskóla unga fólksins sumarið 2012," segir ennfremur.

Þá segir að háskólinn leggi ríka áherslu á tengslin við yngri skólastigin en hann hefur lagt sig fram um að veita ungu fólki fræðslu og vekja áhuga þess á vísindum með Vísindavefnum og Háskóla unga fólksins. „Það sama á við um þátttöku Háskólans í verkefnum eins og Legó-keppninni, Ungir vísindamenn, Tilraunalandinu og í Nýsköpunarkeppni grunnskólanna. Í dagskrá aldarafmælis Háskóla Íslands er að finna fjölmarga viðburði sem ætlað er að vekja athygli barna og unglinga á vísindastarfi með fjölbreyttum og skemmtilegum hætti."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×