Innlent

Segir það stjórnvalda að leggja línuna

Björn Zoëga.
Björn Zoëga.
Björn Zoëga, forstjóri Landspítalans, treystir sér ekki til að tiltaka hvaða þjónustu gæti reynst nauðsynlegt að fella niður komi til frekari niðurskurðar á spítalanum. „Við erum að skoða þessi mál og það er ekki tímabært að segja hvað það verður sem víkur. Um sumt þarf að hafa samráð við ráðuneytið sem skipuleggur heildarþjónustuna og hvort það séu einhver sérstök atriði sem það leggur áherslu á að við leggjum niður frekar en eitthvað annað. Þessi umræða er ekki komin svo langt."

Í síðustu viku sagði Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra að erfitt væri að sneiða framhjá LSH við niðurskurð í ríkisfjármálum, enda tæki spítalinn það stóra sneið af framlögum til heilbrigðismála. Björn sagði fréttirnar vera áfall og að ekki yrði hagrætt lengur heldur yrði einhver þjónusta að leggjast af.

Í viðtali við Fréttablaðið í nóvember í fyrra sagði Björn að kæmi til frekar niðurskurðar, sem nú er boðaður, yrði reynt að viðhalda bráðastarfsemi en minnka annað. „Birtingarmynd þess yrði óendanlegir biðlistar og fólk fengi ekki þjónustu svo mánuðum skiptir," sagði Björn í nóvember.

Nú er krafa á velferðarráðuneytið um 1,5 prósenta niðurskurð. Frá hruni hefur þegar verið skorið niður um 23 prósent á LSH. Starfsmenn spítalans voru 5.218 í janúarlok 2009. Í lok maí í ár voru þeir 4.627. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×