Innlent

Þrisvar kveikt í sama húsi

Þrisvar sinnum hefur verið kveikt í sömu nýbyggingu í miðborg Reykjavíkur á síðustu tveimur vikum. Slökkviliðsstjóri segir ástandið á byggingarreitum í miðbænum slæmt, skemmdarverk séu unnin og eldhætta sé mikil.

Í gær var eldur lagður að byggingunni, sem stendur við Bergstaðastræti. Slökkvilið og sjúkrabílar voru kallaðir til. Samkvæmt íbúum sem fréttamaður ræddi við var það í þriðja skiptið á tveimur vikum sem kveikt hefur verið í.

Eigandi Múramanna, sem sér um bygginguna, kvartar einnig undan skemmdarverkum - segist hafa þurft að læsa verkfæri í byssuskápum til að forða þeim frá skemmdarvörgum. Hann segir mikið um að brotist sé inn á byggingarsvæðið, hlutum stolið og það eyðilagt sem gert var deginum áður.

Jón Viðar, slökkviliðsstjóri, segir slökkviliðið gera sitt besta til að koma í veg fyrir atburði af þessu tagi. „En viljinn hjá sumum er mikill til að láta slæmt af sér leiða," bætir hann við.

Íbúar á Bergstaðastræti segja sökina ekki bara skemmdavarganna - borgaryfirvöld þurfi að horfa í sinn barm. „Mér finnst bara tími til kominn að borgaryfirvöld taki miklu harðari afstöðu þegar kemur að þessum húsum," segir íbúi af svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×