Innlent

Hagræðingarkrafa til Strætó ekki meiri en annarra viðkvæmrar þjónustu

Niðurstaða meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur er að hagræðingarkrafa til Strætó Bs. sé ekki meiri en í annarri viðkvæmri þjónustu, svo sem leikskólum og grunnskólum. Því eru ekki forsendur til að draga samþykkta fjárhagsáætlun til baka.

Þetta kemur fram í bókun Besta flokksins og Samfylkingar frá fundi borgarráðs í morgun.

Bókunin í heild sinni:

„Borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar fagna því að málefni Strætó séu rædd. Mjög hollt er að skoða og endurmeta gjörðir sínar með reglulegum hætti eins og gert hefur verið síðustu daga varðandi fjárhagsáætlun Strætó BS. Eftir nánari skoðun á þeirri áætlun er það niðurstaða meirihlutans í Borgarstjórn Reykjavíkur að hagræðingarkrafa til strætó sé ekki meiri en í annarri viðkvæmri þjónustu s.s. leikskólum og grunnskólum. Því séu ekki forsendur fyrir því að draga samþykkta fjárhagsáætlun til baka. Jafnframt er stjórn Strætó BS. hvött til að leita allra leiða til að minnka þá þjónustuskerðingu sem hlýst af þessum aðgerðum eins og mögulegt er.

Þá vilja borgarráðsfulltrúar Besta flokksins og Samfylkingarinnar benda á að þessi niðurskurður er tímabundinn. Mikilvægt er að nota tímann á þessu ári til að skoða almenningssamgöngur í Reykjavík ítarlega og meta hvernig þeim verður best komið í framtíðinni. Þá er mikilvægt að viðræður við ríkisvaldið um aðkomu þess að eflingu almenningssamgangna verði hraðað og niðurstaða fáist sem allra fyrst"


Tengdar fréttir

Skerðing á þjónustu Strætó staðfest í borgarráði

Meirihluti Besta flokks og Samfylkingar felldi tillögu Vinstri grænna um að koma í veg fyrir þjónustuskerðingu Strætó bs á borgarráðsfundi í dag þrátt fyrir að allmargir fulltrúar Besta flokksins, þar með talinn borgarstjórinn sjálfur hefðu fullyrt að þeir myndu gera allt sem í þeirra valdi stæði til að tryggja óbreytta þjónustu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×