Erlent

Hópdauði dýra algengur í náttúrunni

Óli Tynes skrifar
Dauðir fuglar í Svíþjóð.
Dauðir fuglar í Svíþjóð.

Það er alvanalegt að fuglar og dýr drepist í stórum hópum og þar er ekkert samhengi á milli, segja líffræðingar sem Associated Press fréttastofan hefur leitað til. Það vakti heimsathygli þegar þúsundir dauðra svartþrasta féllu af himni ofan í Arkansas í Bandaríkjunum um áramótin. Nokkrum dögum síðar fundust hundruð dauðra fugla á þjóðvegi í Svíþjóð. Milljónir fiska drápust í Bandaríkjunum og Vietnam og tugþúsundum dauðra krabba skolaði á land í Bretlandi.

Samsæriskenningasmiðir hafa auðvitað komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé upphafið að endalokum jarðarinnar og fundið á því ýmsar skýringar. Tóm vitleysa segir bandaríska stofnunin US Geological Survey sem meðal annars fylgist með heilsufari dýra. LeeAnn White segir að svona lagað gerist að meðaltali annanhvern dag einhversstaðar í Bandaríkjunum. Oftast gerist það utan mannabyggða og enginn taki eftir því. LeeAnn segir að USGS viti um 95 tilfelli á síðustu átta mánuðu.

Orsakirnar geta verið margar. White nefnir sem dæmi yfir 2000 leðurblökur sem drápust úr hundaæði í Texas. Í Minnesota drápu sníkjudýr 4300 endur. Oft á tíðum er svo dánarorsökin hinn dularfyllsta og engin skýring finnist. Hvað sem því líði sé þetta algengt fyrirbæri í náttúrunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×