Innlent

Seðlabankastjóri verði settur af

Þingflokksformaður Framsóknarflokksins kallaði eftir því á Alþingi í dag að Már Guðmundsson seðlabankastjóri yrði settur af eftir að hann neitaði að veita þingnefnd upplýsingar um söluferlið á tryggingafélaginu Sjóvá.

Embættisfærsla Más Guðmundssonar í kringum söluferlið á Sjóvá þykir tortryggileg og skýringar hafa ekki fengist á því hversvegna eignaumsýsla Seðlabankans neitaði að selja tryggingafélagið þeim hópi fjárfesta, sem átti langhæsta boðið. Heiðar Már Guðjónsson, sem fór fyrir fjárfestahópnum, hefur í yfirýsingu sakað bankann um valdníðslu og brot á stjórnsýslulögum og að inn hafi blandast persónuleg sjónarmið.

Sú afstaða Más, að neita að veita viðskiptanefnd Alþingis svör um söluferli Sjóvár, leiddi til umræðu á Alþingi í gær þar sem fram kom að þingmenn, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, líta þögn seðlabankankastjórans alvarlegum augum:

"Ég tel að málið hafi fyrst orðið grafalvarlegt þegar seðlabankastjóri og lögfræðingur Seðlabankans vísuðu þingnefndinni til dómstóla til þess að fá þær upplýsingar sem hún þarf að fá til að geta sinnt skyldum sínum í svona mikilvægu máli sem varðar mjög mikla hagsmuni," sagði sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson.

Málið komst svo á nýtt stig á Alþingi í dag þegar Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Framsóknarflokks, lagði til að Már Guðmundsson yrði settur af.

"Ég set alvarleg spurningarmerki við það hvort þessi ágæti embættismaður sé starfi sínu vaxinn þegar hann neitar að veita löggjafarvaldinu þær upplýsingar sem farið er fram á. Ég held, frú forseti, að það ætti að hvetja hæstvirtan forsætisráðherra til að beita sér fyrir því að það verði endurskoðað hvort þessi ágæti maður getur setið í því embætti sem hann er í í dag," sagði Gunnar Bragi.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×