Erlent

„Elvis prins“ fæddur í Danmörku

María krónprinsessa af Danmörku eignaðist tvíbura í morgun, dreng og stúlku. Hún var lögð inn á Ríkissjúkrahúsið í Kaupmannahöfn í gær og í morgun komu börnin svo í heiminn.

Samkvæmt hefð tilkynnti krónprinsinn, Friðrik um fæðingu barnanna. Hann sagði að drengurinn hefði fæðst fyrst klukkan 9.30 og stúlkan hálftíma síðar. Friðrik sagði Maríu heilsast vel eftir fæðinguna, en fyrir eiga þau hjónin Kristján fimm ára og Isabellu þriggja ára. María er 38 ára gömul og Friðrik er 42 ára. Hann vildi ekkert gefa upp um það í samtali við fréttamenn í morgun hvort þau hjónin hyggðu á frekari barneignir.

Þegar hann var spurður hvort búið væri að ákveða nöfn á litla prinsinn og litlu prinsessuna sagði hann svo ekki vera. En börnin hefðu fæðst á afmælisdegi Elvis Presley þannig að það mætti kalla prinsinn Elvis svona til að byrja með. Þetta er í fyrsta skipti í sögu dönsku konungsfjölskyldunnar sem tvíburðar fæðast í erfðaröð til krúnunnar, en prinsinn nýfæddi er fjórði í röðinni til erfða og stúlkan sú fimmta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×