Innlent

Fjölskyldan í Kaíró: Ég myndi öskra

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar

Egypsk kona sem býr hér á landi segist óttast um afdrif fjölskyldu sinnar í Kairó. Sjálf myndi hún taka þátt í mótmælunum ef hún væri í landinu. Tala látinna er komin yfir hundrað og mörg þúsund eru særðir. Herþotur sveima yfir Kairó og mótmælendur ráða yfir götunum.

Nevin Shalaby kom hingað til lands í ágúst 2009 og býr með íslenskum eiginmanni sínum og tveimur börnum. Hún náði loksins í gær sambandi við fjölskyldu sína í Kaíró. Önnur systir hennar hefur flúið ásamt eiginmanni sínum en yngri bróðir hennar og aldraðir foreldrar eru föst í litlum bæ rétt fyrir utan Kaíró og sæta árásir óeinkennisklæddra lögreglumanna. Þau vita ekki hvernig þau geta sótt sér mat eða hvað þau geta gert. Þau hafa tekið sig saman með nágrönnunum að verja eignir sínar.

Segir lögreglumenn kveikja í húsum

„Egyptar myndu aldrei gera þessa slæmu hluti. Þeir vilja bara fá rétt sinn. Þeim er illa við Mubarak og vilja að hann fari. Þeir kveikja ekki í húsum eða drepa fólk. Það er lögreglan sem gerir það, sú óeinkennisklædda, ekki sú sem er í lögreglubúningum," segir Nevin.

Hún segir Egypta aðeins vilja fá sömu tækifæri og aðrar þjóðir til að mennta sig, sækja sér heilbrigðisþjónustu og byggja upp friðsælt líf. Þjóðin hafi verið bæld niður af Mubarak í þrjátíu ár með innantómum loforðum. Það sé komið nóg af því og nágrannaþjóðir styðji Egypta í baráttunni.

„Ég myndi öskra"

Navin vill að þjóðin fái tækifæri til að kjósa sér lýðræðislega stjórn í stað einkavina Mubaraks og hún trúir að egypska þjóðin muni uppskera betri tíma úr þessum óeirðum. Ef hún væri í Egyptalandi myndi hún slást í hóp með mótmælendum á Tahrir torgi.

„Af öllu hjarta. Ég myndi öskra eins og þeir, vera með þeim, styðja þá. Við erum sterkt fólk og við verðum að ná fram rétti okkar," segir Nevin.






Tengdar fréttir

Hermenn taka þátt í mótmælunum

Fjölmennt lið hermanna er nú á götum Kaíró, höfuðborgar Egyptalands, en hermennirnir halda sér alfarið til hlés og láta mótmælendur óáreitta. Það sama má segja um lögreglumenn. Þá berast fréttir um að fjölmargir her- og lögreglumenn hafi slegist í lið með mótmælendum.

Þjóðarleiðtogar þrýsta á Mubarak

Tala látinna í Egyptalandi er komin á annað hundrað síðan að mótmælin hófust á þriðjudaginn samkvæmt Reuters fréttaveitunni. Þúsundir eru særðir. Stjórnvöld halda nú, sjötta daginn í röð, áfram að berjast við mótmælendur, 17 voru skotnir af lögreglu þegar þeir reyndu að ráðast á tvær lögreglustöðvar í borginni Beni Suef sunnan Kairó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×