Erlent

Mubarak flúinn með fjölskylduna

Hosni Mubarak. Mynd/ afp.
Hosni Mubarak. Mynd/ afp.
Óstaðfestar fréttir herma að Hosni Mubarak forseti Egyptalands og fjölskylda hans hafi yfirgefið höfuðborgina Kairó. Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur lýsti því yfir í dag, fyrstur vestrænna leiðtoga, að forsetinn ætti að segja af sér nú þegar.

Búist er við að allt að tuttugu milljónir manna muni taka þátt í mótmælum í landinu í dag. Nú þegar hafa mótmælin umkringt opinberar byggingar víða um landið. Í Kairó hafa þúsundir mótmælenda umkringt höfuðstöðvar egypska ríkissjónvarpsins og forsetahöllina. Viðbúnaður hersins er mun meiri í höfuðborginni en áður, en herinn hefur hvatt mótmælendur til að láta af aðgerðum sínum og snúa aftur til vinnu.

Þá stefnir hópur mótmælenda að aðsetri forsetans í Alxeandríu þar sem leyniskyttur hafa komið sér fyrir á þaki hallar hans.

Barak Obama forseti Bandaríkjanna sagði í dag að stjórnvöld í Kairó yrðu að hlusta á kröfur fólksins í landinu. Bandaríkin muni styðja raunveruleg valdaskipti í átt til lýðræðis í landinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×