Innlent

Þingmenn gagnrýna leynd - kolniðamyrkur í gagnsæja ferlinu

Már Guðmundsson.
Már Guðmundsson.
Alþingismenn, jafnt í stjórn og stjórnarandstöðu, gagnrýna að Már Guðmundsson seðlabankastjóri skyldi neita að gefa þingnefnd upplýsingar um söluna á tryggingafélaginu Sjóvá. Þingmaður Hreyfingarinnar segir að hið svokallaða gegnsæja ferli líkist fremur dimmum göngum í kolniðamyrkri.

Það var Valgerður Bjarnadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sem vakti athygli á því við upphaf þingfunda í gær að seðlabankastjóri hefði neitað að veita viðskiptanefnd Alþingis upplýsingar um einstök atriði vegna sölunnar á Sjóvá, og borið fyrir sig þagnarskyldu, en salan er í höndum eignaumsýslufélags Seðlabankans. Valgerður sagði erfitt fyrir þingmenn að fylgjast með hvort allt hefði verið eðlilegt ef embættismennirnir, sem ábyrgir væru, neituðu að svara.

Sjálfstæðismaðurinn Sigurður Kári Kristjánsson upplýsti hvað það var sem seðlabankastjóri vildi ekki ræða:

"Hann veitti ekki upplýsingar um það hvers vegna kaupin á félaginu hefðu farið út um þúfur fyrir skemmstu, hvers vegna þeir aðilar sem buðu 80% hærra verð í félagið en aðrir buðu hefðu hætt við kaupin. Hann bar fyrir sig þagnarskyldu."

Sigurður Kári sagði að þá fyrst hefði málið orðið grafalvarlegt þegar seðalbankastjóri vísaði þingnefndinni á dómstóla til að fá umbeðnar upplýsingar, í máli sem vörðuðu mikla hagsmuni.

Margrét Tryggvadóttir, Hreyfingunni, gagnrýndi einnig leyndina:

"Ég get sagt að það var afar einkennilegt að upplifa að okkur þingmönnum var meinað að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki okkar. Þetta svokallaða gegnsæja og opna ferli líkist frekar dimmum göngum í kolniðamyrkri."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×