Innlent

Sjoppuræningjar mæta næsta dag og kaupa kók

Bónusvídeó Mennirnir hótuðu starfsmönnum öllu illu og tóku peninga og sígarettur.Fréttablaðið/gva
Bónusvídeó Mennirnir hótuðu starfsmönnum öllu illu og tóku peninga og sígarettur.Fréttablaðið/gva

Lögregla leitaði í gær tveggja ungra manna sem frömdu vopnað rán í Bónusvídeói í Lóuhólum í fyrrakvöld.

Mennirnir réðust inn í verslunina þremur mínútum fyrir lokun, vopnaðir kúbeini og sveðju og með rauða tóbaksklúta fyrir andlitinu.

Sara Guðmundsdóttir, einn eigenda Bónusvídeós, segir að ránið beri þess öll merki að hafa verið vel skipulagt. Sá mannanna sem vopnaður var kúbeini króaði fjóra viðskiptavini af og ógnað þeim svo þeir þorðu sig hvergi að hræra á meðan sá með sveðjuna bar hana upp að andliti afgreiðslumannsins, hótaði honum öllu illu og lét greipar sópa um peningakassann og sígarettuskápinn. Að svo búnu hurfu þeir út í myrkrið. Atlagan tók um mínútu.

Sara segir þá ekki hafa komist undan með mikið fé, enda hafi afgreiðslumaðurinn fyrir tilviljun verið byrjaður að gera kassann upp og færa peninga á annan stað.

Verslunin hefur verið starfrækt í tæp þrjú ár og á þeim tíma hefur verið brotist inn í hana um tíu sinnum og þrjú vopnuð rán framin.

„Sökudólgarnir nást sjaldnast en krakkarnir sem vinna þarna þekkja þetta lið," segir Sara. „Það er bara svo rosalega erfitt að sanna eitthvað á þá þegar þeir eru með grímu fyrir andlitinu þó svo við sjáum allt mjög vel og þekkjum jafnvel fötin þeirra. Svo eru þetta bara krakkar sem mæta daginn eftir í sjoppuna eins og ekkert hafi í skorist og kaupa sér kók. Ég býst við því að þetta sé svipað mál." - sh






Fleiri fréttir

Sjá meira


×