Erlent

Þrjátíu og fimm ríki eru rekin með halla

Illinois-ríki er talið í mestum efnahagserfiðleikum af ríkjum Bandaríkjanna. Áhyggjuraddir eru farnar að heyrast um greiðslufall ríkisins en slíkt ástand hefur ekki skapast í ríkjum Bandaríkjanna síðan árið 1933, þegar Arkansas gat ekki greitt sínar skuldir. Mynd/AFP-NordicPhotos
Illinois-ríki er talið í mestum efnahagserfiðleikum af ríkjum Bandaríkjanna. Áhyggjuraddir eru farnar að heyrast um greiðslufall ríkisins en slíkt ástand hefur ekki skapast í ríkjum Bandaríkjanna síðan árið 1933, þegar Arkansas gat ekki greitt sínar skuldir. Mynd/AFP-NordicPhotos
Þrjátíu og fimm af fimmtíu ríkjum Bandaríkjanna eru rekin með halla á þessu ári. Samanlagður fjárlagahalli þeirra er talinn nema um 16.500 milljörðum íslenskra króna, eða um 140 milljörðum Bandaríkjadala. Næst á eftir hruni húsnæðismarkaðarins er fjárhagsvandi ríkjanna talinn mesti efnahagsvandi sem Bandaríkin eiga nú við að etja.

Hallinn í Kaliforníu er 6,6 prósent af ríkisútgjöldum en talið er að horfurnar séu verstar í Illinois, þar sem hallinn nemur um 47 prósentum af útgjöldum ríkisins, að sögn Bloomberg. Á fréttavefnum Chicago Breaking Business segir að ríkið hafi lengi notað lánsfé til að fjármagna rekstur sinn. Eyða mætti tæpum helmingi hallans með því að hækka tekjuskatt einstaklinga úr 3 prósentum í 5 prósent. Skattahækkanir njóta takmarkaðs stuðnings á nýkjörnu fylkisþingi Illinois í kjölfar kosningasigurs repúblíkana.

Skuldatryggingaálag á skuldabréfum Illinois-ríkis hefur náð nýjum hæðum. Nýr formaður fjárlaganefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings í Washington-borg, repúblikaninn Paul Ryan frá Wisconsin, segir að forsvarsmenn nokkurra ríkja gefi til kynna áhyggjur af greiðslufalli í einkasamtölum við áhrifamenn í Washington.

Hann segir þó að ríkin geti engrar aðstoðar vænst frá alríkis­stjórninni. „Ættu skattgreiðendur í Indiana, sem hafa borgað sína reikninga á réttum tíma, að borga vanskilaskuldir óreiðumanna í Kaliforníu?“ spyr Paul Ryan í samtali við Bloomberg, og svarar sjálfur: „Nei, það mundi fela í sér siðferðislega áhættu sem við höfum engan áhuga á að taka.“

Þótt margir fjárfestar sem eiga miklar eignir í skuldabréfum ríkjanna séu órólegir telja aðrir ljóst að Paul Ryan og alríkisstjórnin muni eiga erfitt með að víkja sér undan vandanum. „Eftir að hafa sagt já við AIG yrði erfitt fyrir alríkisstjórnina að segja nei við Illinois,“ segir Hugh McGuirk, sem stýrir sjóði sem á um 1.600 milljarða eignir í skuldabréfum sveitarfélaga. Hann vísar til þess að aðgerðir til að forða stærsta tryggingafélagi Bandaríkjanna frá falli hafi kostað bandaríska skattgreiðendur 182 milljarða dala, sem er hærri fjárhæð en samanlagður halli ríkjanna fimmtíu.

peturg@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×