Innlent

Dæmdir fyrir hrottafengna árás

Mennirnir voru dæmdir í héraðsdómi á fimmtudag. fréttablaðið/pjetur
Mennirnir voru dæmdir í héraðsdómi á fimmtudag. fréttablaðið/pjetur
Tveir menn voru á fimmtudag dæmdir í fangelsi fyrir „frelsissviptingu, stórfellda líkamsárás, ólögmæta nauðung og tilraun til fjárkúgunar" auk fíkniefnabrota. Mennirnir, Eyþór Helgi Guðmundsson og Gestur Hrafnkell Kristmundsson, voru dæmdir í tveggja og hálfs árs og tuttugu mánaða fangelsi í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Brot mannanna eru sögð alvarleg, hrottafengin og niðurlægjandi.

Mennirnir héldu ungum manni föngnum í íbúð á Akureyri í ágúst 2009. Þeir beittu hann miklu ofbeldi, köstuðu meðal annars logandi pappír í hann. Þá var hann stunginn með blóðugri sprautunál með þeim afleiðingum að hann smitaðist af lifrarbólgu C.

Ástæða árásarinnar var fíkniefnaskuld fórnarlambsins, en upphæð hennar var mikið á reiki. Fórnarlambið taldi að skuldin hefði numið 30 þúsundum króna en annar árásarmannanna um 200 þúsundum. Fórnarlambið hringdi í foreldra sína úr prísundinni og sagðist þurfa að borga allt að einni milljón króna til að losna.

Mönnunum var gert að greiða fórnarlambi sínu rúmlega 960 þúsund krónur í miska- og skaðabætur ásamt vöxtum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×