Innlent

Snjallir strákar slá garða í sumar

Fréttablaðið/GVA
Þorgils Baldursson, Aron Sævarsson og Ýmir Gíslason eru 14 ára bekkjarfélagar úr Hlíðaskóla. Þá langaði hreint ekki til að vera aðgerðarlausir í sumar og tóku til sinna ráða. „Mér datt bara í hug að fara að slá garða og þeir voru til í að vera með mér í því," segir Þorgils. Þeir félagarnir fengu lánaða sláttuvél og klippur og voru þá tilbúnir í slaginn.

„Við erum komnir með fjóra garða sem við sláum kannski í sumar og vonandi fleiri," segja þeir hressir og þurfa enga hjálp frá foreldrum til að láta skutla sér á milli. „Við löbbum bara á milli garða með vélina."

Strákarnir hafa með sér klippur, slá blettinn og hreinsa beðin og sjá fram á annríki í sumar. „Við höfum fengið fínar viðtökur. Við auglýstum bara í Sunnubúðinni og hengdum líka upp auglýsingar á ljósastaura í Suðurhlíð. Þetta er mjög skemmtilegt og fínt að vera í útivinnu."

Ætla þeir að gera þetta aftur næsta sumar?

„Já það eru miklar líkur á því, það er fínn vasapeningur í þessu."

heida@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×