Innlent

Gamall bíll tengdur við leka gasleiðslu

Þessi bíll kom að góðum notum á Urðunarstöðinni á Álfsnesi þó ekki hafi hann farið fetið.
Þessi bíll kom að góðum notum á Urðunarstöðinni á Álfsnesi þó ekki hafi hann farið fetið. Mynd/Valli
Guðmar Guðmundsson
Á urðunarstöðinni á Álfsnesi má finna gamlan bílgarm sem líklegast getur státað af lengsta púströri í heimi. Þannig vill til að púströr bílsins hefur verið lengt og síðan tengt í gaslögn eina sem er um kílómetri að lengd.

Þetta var þó ekki til gamans gert heldur var þetta neyðarúrræði í síðasta mánuði þegar í ljós kom að súrefni komst inn í gaslögn og þar sem hún er neðanjarðar leit úr fyrir að það yrði bæði tímafrekt og kostnaðarsamt að komast að lekanum. Virtist ekkert annað í stöðunni en að grafa yrði lögnina upp með tilheyrandi kostnaði og fyrirhöfn. Eins hefði verið hægt að panta rándýrt efni, að sögn Guðmars Guðmundssonar stöðvarstjóra, sem hefði síðan komið þeim á sporið þannig að þeir gætu gengið að lekanum.

En þótt bruðl landans komi sér ágætlega fyrir starfsliðið á Álfsnesi vill það sjálft síst af öllu temja sér slíkt háttalag. Því varð úr að Sorpumenn fengu bíldruslu á svæðið og tengdu púströrið í leiðsluna. „Síðan bjuggum við svo um að hægt var að hella úrgangsolíu ofan í pústið. Þá var bara að þenja vélina og hella síðan úrgangsolíunni ofan í púströrið og hleypa þessu svo í leiðsluna. Þá leið ekki á löngu uns reykur stóð upp úr jörðinni og kom hann náttúrulega úr leiðslunni þar sem bilunin var.“

Bifreiðin er af gerðinni Mazda MS6 árgerð 1991. Guðmar Guðmundsson stöðvarstjóri segir að starfsmenn í Álfsnesi hafi fundið hann í blaðaauglýsingu. „Þetta þótti mikill sportbíll á sínum tíma,“ segir Guðmar. „Hann er örugglega hundfúll yfir örlögum sínum, hann var framleiddur til að pikka upp stúlkur á rúntinum en ekki til að standa hérna á Álfsnesi með pústið út í loftið,“ segir hann og hlær við.

jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×