Innlent

Fær kennslustund hjá snillingi

Ágústa, sem hefur áður lært á þverflautu, klarinett og píanó, hóf fiðlunám fyrir tveimur árum. Henni hefur gengið svo vel að Arnhildur grípur hana oft með að spila í messum og á tónleikum.
Ágústa, sem hefur áður lært á þverflautu, klarinett og píanó, hóf fiðlunám fyrir tveimur árum. Henni hefur gengið svo vel að Arnhildur grípur hana oft með að spila í messum og á tónleikum.
Þrettán ára fiðlunema, Ágústu Dómhildi Karlsdóttur, hlotnaðist í gær óvæntur heiður þegar einn allra virtasti fiðluleikari veraldar bauð henni ókeypis kennslustund.

Rússinn Maxim Vengerov leikur á tónleikum í Hörpu á föstudag. Hann hefur um árabil verið einn eftirsóttasti og hæst launaði einleikari veraldar og á aðdáendur um heim allan. Tveir þeirra eru Ágústa og móðir hennar, Arnhildur Valgarðsdóttir, organisti í Lágafellskirkju.

„Dóttir mín er búin að vera að læra á fiðlu í tvö ár og gengur alveg rosalega vel. Hún er dálítið „wunderkind“,“ útskýrir Arnhildur. „Svo fórum við að horfa á Maxim á Youtube og fórum að halda rosalega mikið upp á hann. Þegar ég sá að hann var að koma hringdi ég í Steinunni Birnu [Ragnarsdóttur, tónlistarstjóra Hörpu] og sagði: Jæja, nú er okkar maður að koma og við þurfum bara að hitta hann,“ segir hún.

Það gekk eftir og mæðgurnar hittu snillinginn í gær. „Hann var alveg til í það. Þetta er svo mikill indælis- og öndvegismaður,“ segir Arnhildur.

Í lok fundarins spurði Arnhildur hann í hálfkæringi hvort hann væri ekki til í að taka Ágústu í eina kennslustund og það stóð ekki á svari: tíminn verður á morgun klukkan fimm og Arnhildur á vart orð til að lýsa hrifningu sinni á Vengerov. „Hann er bara svo dásamlegur að gera þetta,“ segir hún.

Að skilnaði gáfu mæðgurnar honum það sem Arnhildur kallar „krúttulegan Íslandspakka“, sem í var geisladiskur sem Arnhildur gerði með Hjörleifi Valssyni fiðluleikara og söngkonunni Ingu Backman, Heimsljós eftir Halldór Laxness í enskri þýðingu og mynd sem Ágústa málaði fyrir hann.

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×