Innlent

IKEA opnar húsbílastæði í Garðabænum

Þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði voru eigendur tveggja húsbíla að undirbúa gistingu þar.
Þegar ljósmyndara Fréttablaðsins bar að garði voru eigendur tveggja húsbíla að undirbúa gistingu þar. Mynd/Daníel
Húsgagnaverslunin IKEA hefur nú í tæpan mánuð boðið húsbílum næturstað á grasflöt fyrir aftan bílastæði verslunarinnar í Garðabæ.

„Þetta hefur gengið framar vonum, það hefur nánast verið bíll hér á hverjum degi frá því að við byrjuðum á þessu," segir Stefán Rúnar Dagsson, viðskiptastjóri IKEA.

Verslunin hefur haft grasflötina opna fyrir húsbíla frá 14. júní síðastliðnum, og benti húsbílaeigendum sérstaklega á að í versluninni væri hægt að fá ókeypis kaffi á morgnana og ódýran morgunmat. Stefán segist ekki hafa fylgst með því hvort það hefur mikið verið nýtt. Ákveðið var að kynna stæðið fyrir húsbílaeigendum en auglýsa það ekki frekar.

Aðspurður segir Stefán að fyrirtækið hafi fengið fyrirspurn um húsbílastæðið frá frumkvöðli í húsbílamálum hér á landi, en sá sagði stæði sem þetta vanta á höfuðborgarsvæðið. Fyrirtækið skoðaði málið og komst að því að kostnaður við uppsetningu væri ekki svo mikill.

„Þetta er þekkt um allan heim er mér sagt, í svona kjörnum, að það séu sérstök húsbílastæði og aðstaða fyrir húsbíla."

Stefán segir að til standi að hafa stæðið opið fyrir húsbíla eins lengi og ferðamannantímabilið standi. „Viðtökurnar hafa verið svo góðar."

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×