Innlent

Bændasamtökin gefa út bók

Í formála bókarinnar er ritið sagt mikilvægt innlegg í umræður um aðild Íslands að ESB.
Í formála bókarinnar er ritið sagt mikilvægt innlegg í umræður um aðild Íslands að ESB. Mynd/Stefán
Bændasamtök Íslands hafa gefið út bók um landbúnaðarlöggjöf Evrópusambandsins. Bókin er skrifuð af Stefáni Má Stefánssyni, prófessor í lögum við Háskóla Íslands.

„Um áraraðir hafa Bændasamtökin stundað mjög markvissa vinnu við að kynna sér landbúnaðarstefnu ESB og máta við íslenskar aðstæður. Eftir að aðildarumsókn Íslands var send inn fengum við svo Stefán Má til að taka saman þetta rit,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna.

Í ritinu eru einnig settar fram varnarlínur Bændasamtakanna, sem eru þau lágmarkssamningsmarkmið sem íslensk stjórnvöld verða að mati samtakanna að hafa til hliðsjónar við aðildarviðræðurnar við ESB.

Varnarlínur Bændasamtakanna eru í sjö liðum. Má þar nefna að íslensk stjórnvöld hafi áfram heimild til að leggja tolla á búvörur frá löndum ESB og að reglur um innflutningsheimildir fyrir dýr og dýraafurðir verði ekki rýmkaðar frekar.

Spurður hvernig bregðast ætti við ef ekki reyndist unnt að standa vörð við allar sjö varnarlínurnar í aðildarviðræðunum sagði Haraldur: „Ég held að það sé mjög varhugavert að byrja á því að semja við sjálfan sig og ganga út frá því að þetta muni ekki ganga.“

Þá segist Haraldur hafa áhyggjur af því hvernig staðið hafi verið að mótun samningsmarkmiða Íslands.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×