Innlent

Lýðræðistalið er yfirskin

Það er grátlegt, segir Zalmay, en sum ríki geta ekki varist yfirráðum Bandaríkjanna nema með því að koma sér upp efnavopnum.
Það er grátlegt, segir Zalmay, en sum ríki geta ekki varist yfirráðum Bandaríkjanna nema með því að koma sér upp efnavopnum.
Með Obama Á góðri stund Gulzad telur að Obama vilji vel en sé þó um megn að breyta hlutverki Bandaríkjanna.
Fræðimaðurinn, fyrirlesarinn og kennari við Harold Washington Community College í Chicago, Zalmay Gulzad, gagnrýnir utanríkisstefnu Bandaríkjanna harðlega og telur að aukin menntun og víðsýni ungs fólks í arabaheiminum geri Bandaríkjunum erfiðara að halda yfirráðum sínum. Í samtali við Jón Sigurð Eyjólfsson blaðamann sagði hann einnig að það væru reginmistök að vopnavæða uppreisnarmenn í Líbíu, það hefði sýnt sig að þannig sköpuðu þeir nýja hættu og meiri hörmungar.

Zalmay Gulzad er fæddur og uppalinn í Kabúl í Afganistan en fór þaðan árið 1971, þá nítján ára gamall, til Bandaríkjanna. Hann er með doktorsgráðu í sögu frá Háskólanum í Wisconsin og hefur haldið fyrirlestra um málefni Mið-Austurlanda sem og Mið- og Suður-Asíu.

Hann er einnig höfundur bókarinnar External Influences and the Development of the Afghan State in the Nineteenth Century.

Nýr risi gegn BandaríkjunumGulzad segir að þess sjáist glögg merki að auðlegð Bandaríkjanna sé alls ekki eins mikil og áður. Dollarinn sé ekki lengur sterkasta myntin og í raun fari að vera þjóðinni ofviða að viðhalda innviðum samfélagsins. Til dæmis séu vegir í Chicago víða orðnir hrörlegir.

„Bandaríkjamenn eru einnig meðvitaðir um að nýr risi er farinn að spyrna við þeim og þá á ég við Indland, Kína, Brasilíu og Rússland sem stendur ógn af ásókn Bandaríkjamanna í austri og hafa bundist sameiningarböndum auk Suður-Afríku í formi SANYA-samningsins. Þessi lönd geta skotið Kananum ref fyrir rass en þó ekki á meðan Bandaríkjamenn hafa yfirráð yfir flestum olíuauðlindum heimsins."

Vilja stöðugleika en ekki lýðræðiGulzad segir að til að tryggja sig í sessi sem heimsveldi verði Bandaríkin að viðhalda utanríkisstefnu sem hann hafi andstyggð á. „Það er í raun yfirskin að segjast vilja koma á og tryggja lýðræði í þriðja heiminum eins og Bandaríkjastjórn er sífellt að tönnlast á. Það sem Bandaríkjamenn vilja er stöðugleiki en ekki lýðræði. Þeir hafa sýnt það í öðrum löndum eins og Afganistan, Níkaragva og víða í Afríku að þeir styðja þau öfl sem þeir getað stjórnað eins og strengjabrúðu, frekar en þau öfl sem vilja tryggja lýðræði."

Al-kaída innan um menntafólkiðHann segir ungt fólk í arabaheiminum orðið mun víðsýnna en áður og það geri Bandaríkjunum erfitt fyrir. „Þetta unga fólk sættir sig ekki við strengjabrúður nýlenduherranna deginum lengur. En þetta er þó ekki einsleitur hópur. Veröldin er flóknari en svo að hægt sé að draga víglínur og segja þarna megin við hana eru vondu mennirnir og þeir góðu eru hérna megin. Það er nú svo að fólk frá öllum ríkjum múslima fylkir sér í hóp uppreisnarmanna hvar sem er. Þarna inn á milli upplýsts ungs fólks eru menn úr Al-kaída og fleiri samtaka sem varhugavert er að styðja."

Vill ekki vopnbúa andspyrnunaGulzad er minnugur þess þegar Bandaríkjamenn studdu afgönsku frelsishreyfinguna gegn Sovétmönnum á sínum tíma en þá var hornsteinninn að samtökum talibana lagður. „Það eru því að mínu viti hræðileg mistök að vopnbúa mótspyrnuhreyfingar, til dæmis í Líbíu, því það er aldrei að vita hvert byssuhlaupinu verður snúið að byltingu lokinni. Það er ávísun á langvarandi hörmungar þar sem innviðir samfélagsins verða lagðir í rúst. Þá fer líka mikilvægasti auðurinn til spillis en það er mannauðurinn; menntafólkið flytur í burtu. Í minni stórfjölskyldu eru einar þrettán konur sem starfa sem læknar, þar á meðal ein sem er með færustu skurðlæknum í heimi. Þetta er allt saman mannauður sem Afganistan, okkar heimaland, er að fara á mis við því stríðsástandið hefur hrakið okkur öll í burtu."

Efnavopn eina vörninÞað er margt sem Gulzad gremst í alþjóðastjórnmálum. Til dæmis er það sár trú hans að efnavopn séu eina leið nokkurra þjóða til að verjast yfirráðum Bandaríkjanna. „Ég er alls ekki hlynntur efnavopnum en svona er þetta þó. Reyndar veit ég að forseti Norður-Kóreu sendi Gaddafí bréf þar sem hann segir: „Þú varst nú meiri bjáninn að hætta við efnavopnaáætlunina þína. Þú ættir ekki í þessum vanda ef þú hefðir haldið þessari áætlun til streitu." Það er sorglegt en sá kóreski á kollgátuna."

Þáði ekki sæti í ríkisstjórninniHamid Karzai, forseti Afganistan, bauð Gulzad sæti í ríkisstjórn sinni. „Ég þekki hann Karzai vel og hann þekkir vel til minnar fjölskyldu sem var reyndar nokkuð þekkt í Afganistan. Faðir minn var í ríkisstjórn landsins sem og föðurbróðir minn. Já, það er satt hann vildi að ég tæki þátt í uppbygginu landsins en ég tel það ekki vera í þágu þjóðarinnar að sitja í ríkisstjórn sem í raun er stjórnað eins og strengjabrúðu. Karl Eikenberry, sendiherra Bandaríkjanna, er í raun sá sem stýrir landinu."

Obama vill vel en...„Ég ber mikla virðingu fyrir Obama en það væri barnalegt að halda að hann geti breytt því hlutverki sem Bandaríkin hafa tekið að sér. Þau eru í eðli sínu heimsveldi og þau hafa verið mótuð til að viðhalda sínum sess sem slíkt, einn maður getur ekki breytt því, jafnvel þó hann sé forseti. Ég veit til dæmis að Obama gerir allt sitt til að draga herlið sitt frá Afganistan en það á eftir að slá verulega á puttana á honum. Við eigum líka við annan vanda að etja en það eru nágrannar okkar í Pakistan. Í Pakistan er samstaðan af skornum skammti enda búa þarna margar þjóðir. Til þess að viðhalda samstöðu nota þeir sama bragð og Bandaríkjamenn, það er að segja að búa til óvin og einblína á hann, leika síðan hlutverk hins mikla verndara sem passar upp á lýðinn. Þessi óvinur er Indland og síðan er verið að vekja upp ógn gagnvart Afganistan. Reyndar fékk ég óþægilega áminningu um það hversu víða þetta tengslanet herskárra Pakistana dreifist. Það var verið að handtaka einn pakistanskan og dagfarsprúðan nágranna minn fyrir skömmu. Þetta var ekki vinur minn, en svona „hallóvinur". Ég frétti það síðar að hann hefði tengst hryðjuverkaárásinni á Taj Mahal-hótelinu í Mumbai árið 2008. Það er sem ég segi, þetta er ekki eins og í seinni heimsstyrjöldinni þegar hægt var að draga eina víglínu og segja þeir vondu eru hinu megin og þeir góðu hérna megin."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×