Innlent

Afrískur matur heillar

Azeb og Lemlem Kahssay sitja hér í Minilik á Flúðum til þjónustu reiðubúnar.
Azeb og Lemlem Kahssay sitja hér í Minilik á Flúðum til þjónustu reiðubúnar.
Fyrsti eþíópíski veitingastaðurinn hér á landi var opnaður á Flúðum á sjálfan þjóðhátíðardag Íslendinga í júní síðastliðnum. Einn eigendanna, Azeb Kahssay, segir að Íslendingar hafi tekið þessari nýbreytni afar vel.

„Margir hafa komið og fólk er bara ánægt með matinn," segir hún. Hún segist hafa orðið vör við að margir gestanna séu fólk sem búið hafi í lengri eða skemmri tíma í Afríku og vilji greinilega finna þefinn af afrískri matargerð á ný. En þeir sem eru að bragða í fyrsta sinn virðast taka matargerðinni vel. „Það er einna helst kryddið sem er ólíkt því sem Íslendingar eiga að venjast," segir Azeb. Þó er ekki allt jafn framandi því unnið er úr íslensku hráefni, en Azeb er til dæmis afar hrifin af íslenska lambakjötinu.

Hún hefur búið hér á landi í þrjú ár og segir dvölina fara síbatnandi en það var vitanlega mikil raun fyrir hana að koma úr ys og þys milljónaborgarinnar Addis Ababa og fara í kuldann og fámennið á Íslandi. Hún vann á gróðrarstöð áður en hún og systir hennar Lemlem ákváðu að koma veitingastaðnum Minilik á koppinn. Minilik var keisari í Eþíópíu um þarsíðustu aldamót og er enn hampað sem þjóðhetju þar í landi.

- jse




Fleiri fréttir

Sjá meira


×