Erlent

Vopnahlésloforð nægir ekki

Þrír meðlimir ETA á myndbandi sem samtökin sendu frá sér.nordicphotos/AFP
Þrír meðlimir ETA á myndbandi sem samtökin sendu frá sér.nordicphotos/AFP

Stjórnvöld á Spáni gefa lítið fyrir vopnahlésyfirlýsingu sem aðskilnaðarsamtök Baska, ETA, sendu frá sér í gær.

Alfredo Perez Rubalcaba, innanríkisráðherra Spánar, sagðist ekki hafa áhuga á að heyra neitt frá ETA annað en yfirlýsingu um skilyrðislausa uppgjöf og afvopnun. Þetta væri einnig krafa fyrri stjórna Spánar og almennings á Spáni.

Samtökin lýstu yfir vopnahléi í september, en tóku þá ekki fram til hve langs tíma. Í yfirlýsingunni frá í gær segja þau þetta vopnahlé verða varanlegt, en árið 2006 lýstu þau einnig yfir varanlegu vopnahléi sem þau rufu síðan tæpu ári síðar.

Samtökin segjast vilja viðræður um framtíð Baskalands og ætla að berjast á lýðræðisvettvangi fyrir aðskilnaði frá Spáni.

Rubalcaba gefur lítið fyrir þetta og segir samtökin enn gera kröfur um að fá eitthvað í skiptum fyrir vopnahlé.

Samtökin ETA voru stofnuð árið 1959 og hófu tæpum áratug síðar blóðuga baráttu fyrir aðskilnaði Baskalands frá Spáni. Sú barátta hefur kostað meira en 800 manns lífið.

Skammstöfunin ETA stendur fyrir Euskadi Ta Askatasuna, sem á máli Baska þýðir Baskaland og frelsi. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×