Erlent

Múbarak lýsir yfir sakleysi sínu

Hosní Múbarak stríðir við veikindi og lá á sjúkrarúmi í járnbúri sakborninga.
Hosní Múbarak stríðir við veikindi og lá á sjúkrarúmi í járnbúri sakborninga. Mynd/AP
Hosní Múbarak, fyrrum forseti Egyptalands, kom fyrir rétt í gær þar sem hann lýsti sig saklausan af ákærum um spillingu og fyrir að hafa fyrirskipað dráp á mótmælendum í uppreisninni í landinu í febrúar. Um 850 borgarar létu lífið í árásum öryggissveita til að kæfa niður friðsamleg mótmæli.

Múbarak, sem er 83 ára, hefur átt við erfið veikindi að stríða allt frá því að hann var hrakinn frá völdum. Hann lá á sjúkrarúmi sínu í járnbúri í réttarsalnum, eins og tíðkast í réttarsölum þar í landi. Þar voru ásamt Múbarak níu aðrir sakborningar, þar á meðal tveir synir hans sem eru sakaðir um spillingu.

Réttarhöldin voru sýnd í beinni sjónvarpsútsendingu, en þetta er í fyrsta sinn sem Múbarak sést opinberlega síðan hann kom fram í sjónvarpi hinn 10. febrúar og sagðist ekki vera á leið að hætta. Hann hvarf úr embætti daginn eftir og hefur upp frá því dvalið í strandborginni Sharm-el-Sheik.

Mannfjöldi safnaðist saman utan við réttarsalinn, flestir til að úthrópa Múbarak, en mikill þrýstingur hefur verið á herforingjastjórnina að láta forsetann svara til saka fyrir meinta glæpi sína.

Réttarhöldin halda áfram hinn 15. þessa mánaðar.

- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×