Erlent

Varar við útbreiðslu kreppu

Efasemdir eru uppi um að hægt verði að bjarga Ítalíu og Spáni úr skuldavanda.
Efasemdir eru uppi um að hægt verði að bjarga Ítalíu og Spáni úr skuldavanda. nordicphotos/afp
Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, José Manuel Barroso, hefur varað við því að skuldavandi sé að breiðast út fyrir evrusvæðið. Forsetinn sendi ríkisstjórnum Evrópusambandsríkjanna bréf í gær þar sem hann kallaði eftir fullum stuðningi þeirra við evrusvæðið.

Yfirlýsing Barroso ásamt öðru hefur orðið til þess að allar helstu hlutabréfavísitölur í Evrópu og Bandaríkjunum hafa lækkað mikið. Fréttir bárust af því í gær að Seðlabanki Evrópu hefði keypt ríkisskuldabréf Portúgals og Írlands. Jean-Claude Trichet, forstjóri bankans, sagði aðeins á blaðamannafundi í gær að skuldabréfakaup væru alltaf í gangi.

Nú þegar hefur Grikklandi, Portúgal og Írlandi verið bjargað frá falli en framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur efasemdir um að hægt sé að bjarga Ítalíu og Spáni, sem eru þriðju og fjórðu stærstu hagkerfin á evrusvæðinu.

Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, hélt í gær áfram að reyna að róa markaði þar. Á Spáni var haldið skuldabréfaútboð í gær en tilkynnt var að því loknu að hætt hefði verið við annað útboð sem átti að fara fram 18. ágúst.

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×