Erlent

Pyntingarbúðir setja strik í reikning ESB

Stofnun sem hefur það að markmiði að stöðva útflutning á demöntum frá stríðshrjáðum löndum hefur ekki viljað opna fyrir útflutning á demöntum frá Simbabve enn sem komið er.Nordicphotos/AFP
Stofnun sem hefur það að markmiði að stöðva útflutning á demöntum frá stríðshrjáðum löndum hefur ekki viljað opna fyrir útflutning á demöntum frá Simbabve enn sem komið er.Nordicphotos/AFP
Hugmyndir Evrópusambandsins (ESB) um að heimila innflutning á demöntum frá Simbabve, með skilyrðum, gætu verið í uppnámi eftir að upplýst var um pyntingarbúðir á demantaekrum landsins.

Í fréttaskýringaþættinum Panorama á BBC í gærkvöldi var hulunni flett af pyntingarbúðum sem hermenn og lögreglumenn í landinu reka í Marange-héraði í austurhluta landsins. Stjórnvöld í Simbabve hafa ekki viljað tjá sig um efni þáttarins.

Lögreglumenn og hermenn í Simbabve vinna markvisst að því að fá fólk til að vinna við að grafa eftir demöntum fyrir sig. Þeir sem óhlýðnast, eða heimta betri laun eða aðbúnað, eru sendir í pyntingarbúðirnar. Þangað senda lögreglumenn og hermenn einnig fólk sem hefur orðið uppvíst af því að grafa upp demanta án leyfis.

Fólk sem haft hefur verið í haldi í búðunum sagði fréttamönnum BBC frá því að fólk af báðum kynjum hafi verið barið með svipum, prikum og steinum, og að konum hafi verið nauðgað. Vitni segja búðirnar hafa verið starfræktar í þrjú ár að minnsta kosti.

Fulltrúar ESB hafa undanfarið unnið að því að opna fyrir sölu á alþjóðamarkaði á demöntum frá tveimur námum í Simbabve. Þeir hafa fullyrt að aðstæður í námunum uppfylli alþjóðleg skilyrði. Simbabve hefur ekki getað flutt út demanta með löglegum hætti undanfarin ár eftir að fréttist af morðum og misnotkun á fólki í tengslum við demantavinnslu í landinu.

Stærstu pyntingarbúðirnar eru staðsettar innan við tvo kílómetra frá annarri af þeim tveim námum sem ESB telur uppfylla öll skilyrði til útflutnings. Náinn samverkamaður Roberts Mugabe forseta rekur námuna.

Fyrrverandi fangar í pyntingarbúðunum í Simbabve lýstu pyntingunum á BBC í gær. „Þetta eru pyntingar, stundum geta námuverkamennirnir ekki gengið eftir barsmíðarnar,“ segir einn fanganna fyrrverandi, sem vildi ekki koma fram undir nafni.

Annar lýsti því hvernig grimmum hundum er sigað á handjárnaða fangana.

„Þeir berja okkur 40 sinnum með svipu á morgnana, 40 sinnum seinnipartinn og aftur 40 sinnum á kvöldin,“ sagði fyrrverandi fangi.

„Þeir börðu iljarnar á mér með prikum á meðan ég lá á jörðinni. Þeir börðu líka á mér ökklana með steinum,“ sagði hann við fréttamenn BBC.brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×