Erlent

Samkynhneigðir fengju að giftast

Meirihluti gæti myndast á danska þinginu fyrir því að leyfa hjónabönd fólks af sama kyni.
Meirihluti gæti myndast á danska þinginu fyrir því að leyfa hjónabönd fólks af sama kyni. Mynd/AFP
Útlit er fyrir að meirihluti myndist á danska þinginu fyrir því að leyfa hjónabönd fólks af sama kyni. Þetta kemur fram í frétt dagblaðsins Urban, sem byggir á spurningalista sem lagður var fyrir frambjóðendur til þingkosninganna sem fara fram á morgun.

Í könnuninni kemur fram að meirihluti er meðal allra flokka á vinstri kantinum, sem og Liberal Alliance, fyrir því að leyfa hjónavígslur fólks af sama kyni.

Þá er Venstre, flokkur Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra, nokkuð hlynntur breytingunni, en Íhaldsflokkurinn, sem situr einnig í stjórn, er klofinn til málefnisins. Hjónavígslur fólks af sama kyni eru leyfilegar á Íslandi, í Noregi og Svíþjóð.

„Síðustu tíu ár höfum við dregist aftur úr öðrum löndum varðandi réttindabaráttu,“ segir Sören Laursen, talsmaður sam- og tvíkynhneigðra í Danmörku, í samtali við Urban. „Því er svo mikilvægt að svo margir frambjóðendur séu þeirrar skoðunar að tími sé kominn á breytingar.“- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×