Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester United, hefur biðlað til stuðningsmanna félagsins að hætta að syngja um Hillsborough-slysið í leikjum á móti Liverpool, en erkifjendurnir mætast á Anfield í dag.
United-menn hafa ítrekað reynt að strá salti í sárin með því að syngja um slysið á Hillsborough-vellinum í Sheffield í undanúrslitaleik bikarsins árið 1989 þar sem 96 stuðningsmenn Liverpool krömdust til bana.
„Ég lít alltaf á þessa leiki sem leiki ársins í enska boltanum. Við þörfnumst hver annars og verðum að sýna virðingu. Söngvar um Hillsborough hjálpa hvorugu félaginu,“ sagði Ferguson.