Fótbolti

Stjarna Filippseyinga tryggði sér treyju Beckhams á blaðamannafundi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ray Anthony er hér með boltann í leiknum gegn Galaxy og sjálfur David Beckham þjarmar að Grindvíkingnum. Ray náði að pirra Beckham í leiknum.
Ray Anthony er hér með boltann í leiknum gegn Galaxy og sjálfur David Beckham þjarmar að Grindvíkingnum. Ray náði að pirra Beckham í leiknum. Mynd/AP
Fyrir rúmu ári var Grindvíkingurinn Ray Anthony Jónsson valinn í landslið Filippseyja. Faðir Rays er íslenskur en móðir hans frá Filippseyjum. Þar sem hann hafði aldrei leikið fyrir A-landslið Íslands var hann gjaldgengur í filippseyska landsliðið.

Ray ákvað að stökkva til og taka slaginn. Hann sér ekki eftir því í dag. Hann er nýkominn heim eftir enn eina ævintýraferðina, þar sem hann lék með landsliðinu gegn David Beckham og félögum í LA Galaxy. Leikið var í Maníla á Filippseyjum.

„Þetta var mögnuð reynsla. Það var samt leiðinlegt að tapa svona stórt og í raun algjör óþarfi. Þeir refsuðu okkur samt grimmilega," sagði Ray, en leiknum lyktaði með 6-1 sigri Galaxy. Ray sagði að talsvert hefði munað um að tvo fasta varnarmenn vantaði í lið Filippseyja.

Ray spilar sem vinstri bakvörður hjá landsliðinu og batt því nokkrar vonir við að mæta Beckham, sem leikur oftar en ekki á hægri kantinum. Beckham lék aftur á móti sem djúpur miðjumaður í leiknum og Ray gat því lítið tekið á honum.

Magnað að fylgjast með Beckham í návígi
„Hann var ekkert mikið að rekja boltann. Það var ein snerting og svo snilldarsending. Maður hefur oft séð þetta í sjónvarpinu en loksins sá maður þetta beint. Þetta eru ótrúlegar spyrnur og líka svo fastar. Það var magnað að fylgjast með honum," sagði Ray og mátti heyra að draumur hefði verið að rætast með því að spila gegn Beckham.

„Daginn fyrir leik fórum við allir að horfa á æfingu með þeim. Það eiga margir mynd af sér þar sem þeir standa við hlið Beckhams en ég vildi eiga mynd þar sem ég er að berjast við hann á vellinum. Ég var spenntastur fyrir að fá svoleiðis mynd og hún náðist. Það var snilld," sagði Ray, en hann náði líka að fara í taugarnar á ofurstjörnunni.

„Ég gaf honum óvart olnbogaskot. Hann var ekki sáttur við það. Hann bölvaði eitthvað og ætlaði svo í ökklann á mér. Hann hitti mig ekki og var reiður við mig," sagði Ray og hló við. „Hann fór samt lítið í návígi og hoppaði upp úr öllum tæklingum. Hann vildi greinilega ekki meiða sig enda með lausan samning."

Fékk frí frá æfingu til þess að biðja um treyju Beckham
Ansi sérstök uppákoma átti sér stað daginn fyrir leik þegar stærsta stjarna filippseyska landsliðsins, Phil Younghusband, mætti á blaðamannafund með Beckham og tryggði sér keppnistreyju Beckhams eftir leikinn.

„Hann fékk frí á æfingu til þess að fara á blaðamannafundinn. Þar stóð hann upp fyrir framan alla og spurði hvort Beckham myndi ekki gefa honum treyjuna eftir leikinn. Beckham gat ekki sagt nei enda í erfiðri stöðu. Þetta var helvíti gott hjá honum," sagði Ray. Beckham deildi út treyjum þennan daginn því er hann kom af velli afhenti hann frægasta íþróttamanni Filippseyja, hnefaleikamanninum Manny Pacquiao, líka treyju.

„Þetta var líka mjög sérstakur leikur og okkur leið eins og á útivelli enda flestir að styðja Beckham. Við vorum meira að segja sendir í búningsklefa aðkomuliðsins á meðan Galaxy var í okkar klefa. Dómgæslan var meira að segja afar hliðholl Galaxy. Þetta var alveg magnað."

50-60 flugferðir á einu ári
Árið hefur verið mikið ævintýri fyrir Ray, sem hefur ferðast á ótrúlega staði, og fram undan er mikið af spennandi verkefnum.

„Ég er að fara í æfingaferð með liðinu til Tyrklands í janúar. Svo förum við til Dúbaí í enda febrúar. Við förum svo á spennandi átta liða mót í Nepal í byrjun mars. Við erum því að undirbúa okkur fyrir það mót. Þar mætum við meðal annars Suður-Kóreu, Indlandi, Brúnei og fleirum. Það verður hrikalega heitt þarna og ég mun örugglega þurfa 1-2 leiki til þess að venjast hitanum," sagði Ray, sem bíður engu að síður spenntur eftir því að fara til Nepal.

„Ég og einn strákur í liðinu fljúgum venjulega saman í leiki frá Englandi og við töldum að við værum búnir að fara 50-60 sinnum í flugvél á þessu ári. Við þurfum venjulega að fara í þrjú flug í leiki og jafn mikið til baka. Þetta er orðið ansi mikið og maður verður að fara að nýta punktana," sagði Ray léttur.

Bakvörðurinn viðurkennir að hafa ekki vitað hvað hann væri að fara út í þegar hann ákvað að taka slaginn með Filippseyingum.

Mikill uppgangur hjá landsliðinu
„Fyrstu mánuðina var þetta afar sérstakt. Þá keyrðum við um í ónýtum rútum. Í fyrsta mótinu mínu náðum við góðum árangri og þá komu styrktaraðilar að liðinu og eftir það hefur þetta verið allt annað líf. Nú eigum við tvær flottar rútur og gistum á almennilegum hótelum. Það er mikill uppgangur hjá okkur núna og gaman að taka þátt í þessu," sagði Ray Antony og bætti við að hann væri búinn að ferðast til flestra landa í Asíu.

„Þetta er búið að vera frábært ævintýri og ég sé ekki eftir því að hafa tekið slaginn. Ég er orðinn 32 ára og ætla að njóta þess að taka þátt þessi fáu ár sem ég á eftir í boltanum," sagði Ray Anthony Jónsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×