Erlent

„Þetta er harmleikur allrar þjóðarinnar“

Heimir Már Pétursson skrifar
Lögreglustjóri í Arizona segir að fólk verði að átta sig á því að hatursfull umræða atvinnumanna í fjölmiðlum hafi afleiðingar. Rúmlega tvítugur maður skaut sex manns til bana á stjórnmálafundi í fylkinu í gær og særði þingkonu lífshættulega.

Gabrielle Giffords þingmaður Demókrata frá Arizona boðaði til samræðufundar við kjósendur fyrir utan verlsunarmiðstöð í Tucson borg í gærdag, þar sem byssumaður gekk upp að henni og skaut hana í höfuðið. Svona lýsir vitni atburðinum:

„Mér var litið upp og þá sá ég mann skjóta hana í höfuðið og síðan skaut hann af byssunni í allar áttir."

Viðstaddir náðu að yfirbuga byssumanninn og Giffords og aðrir særðir og látnir voru fluttir á sjúkrahús. Um tíma var talið að þingmaðurinn hefði látist en síðar kom í ljós að byssukúlan fór í gegnum höfuð hennar og heila og eru taldar ágætar líkur á að hún nái einhverjum bata.

Sex féllu í árásinna, þeirra á meðal formaður fylkisdóms Arizona, níu ára gömul stúlka og einn af aðstoðarmönnum þingmannsins. Árásarmaðurinn er tuttugu og tveggja ára gamall og heitir Jared Loughner.

Lögreglustjóri sýslunnar þar sem árásin átti sér stað segir grun leika á að hann gangi ekki heill til skógar, og hafi verið upptekinn af hatursáróðri í garð frjálslyndra stjórnmálamanna.

„Hann mun hafa átt í erfiðleikum og við vitum ekki með vissu hvort hann hafi verið einn að verki eða ekki."

Giffords studdi m.a. umbætur forsetans á heilbrigðiskerfinu sem voru mjög umdeildar í Arizona og hægriöfgamenn Te-hreyfingarinnar réðust harkalega að henni í kosningabaráttunni í nóvember.

„Fólk hefur tilhneigingu til að gera lítið úr þeim níðröddum sem við heyrum sífellt frá fólki hefur atvinnu af því. Þetta kann að vera gert í krafti tjáningarfrelsis en afleiðingarnar eru oft miklar," segir lögreglustjórinn.

Barack Obama forseti var sleginn þegar hann tjáði sig um atburðina í gærkvöldi og sagði að Giffords hafi verið að hlusta á raddir fólksins þegar hún var skotin.

„Af þeim sökum er þetta meira en harmleikur fyrir þá sem málið varðar. Þetta er harmleikur Arizona og harmleikur allrar þjóðarinnar."










Fleiri fréttir

Sjá meira


×