Innlent

Hreindýraland, tónleikar á Skálholti og Þórbergssetur tilefnd

700IS Hreindýraland er alþjóðleg kvikmynda- og vídeólistahátíð sem haldin er á Egilsstöðum.
700IS Hreindýraland er alþjóðleg kvikmynda- og vídeólistahátíð sem haldin er á Egilsstöðum.
Eyrarrósin, árleg viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni, verður afhent í sjöunda sinn á Bessastöðum 13. febrúar næstkomandi. Þrjú verkefni hafa verið tilnefnd úr hópi umsækjenda: 700IS Hreindýraland á Egilsstöðum, Sumartónleikar í Skálholti og Þórbergssetur á Hala í Suðursveit.

Eyrarrósin er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík, Byggðastofnunar og Flugfélags Íslands. Markmið Eyrarrósarinnar er að efla fagmennsku og færni við skipulagningu menningarlífs og listviðburða á landsbyggðinni, skapa sóknarfæri á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu og auka kynningarmöguleika einstakra sveitarfélaga og landshluta.

Við athöfnina verður tilkynnt hvert framangreindra verkefna hlýtur Eyrarrósina í ár; fjárstyrk að upphæð 1,5 milljón kr, verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Aðrir tilnefndir hljóta 250 þúsund króna framlag auk flugferða. Verðlaunin veitir Dorrit Moussaieff forsetafrú, sem jafnframt er verndari Eyrarrósarinnar.

Umsögn valnefndar um tilnefnd verkefni:

700is Hreindýraland

700IS Hreindýraland er alþjóðleg kvikmynda- og vídeólistahátíð sem haldin er á Egilsstöðum. Hátíðin var fyrst haldin árið 2006 og stendur yfir í vikutíma í mars ár hvert. Áhersla er lögð á að sýna tilraunakennda kvikmyndalist og á hátíðin í góðu samstarfi við skóla á Fljótsdalshéraði sem og innlendar og erlendar menningarstofnanir. Virk þátttaka Héraðsbúa sem og öflugt Evrópusamstarf gefur hátíðinni mikið gildi og skipuleggjendur hafa unnið frumkvöðlastarf í kynningu myndbanda- og vídeólistar. 700IS Hreindýraland er áhugaverður bræðingur listgreina sem auðgar menningar- og mannlíf á Austurlandi sem og alla ferðaþjónustu á svæðinu, með því að laða að erlenda og innlenda listamenn og gesti utan hefðbundins ferðamannatíma.

Sumartónleikar í Skálholti

Sumartónleikar í Skálholti hafa í þrjátíu og fimm ár verið haldnir í nokkrar vikur á hverju sumri í Skálholtsdómkirkju í Biskupstungum. Jafnframt er þar staðið að öflugri útgáfu og rannsóknum á tónlistararfinum. Fjölbreytt efnisval og gæði Sumartónleikanna laða að stóran hóp tónlistarunnenda auk ferðamanna og annarra gesta enda orðnir fastur liður í lífi fjölda fólks. Listrænn metnaður hátíðarinnar hefur eflt nýsköpun í tónlist, stuðlað að vakningu á flutningi barokktónlistar á Íslandi og dýpkað þekkingu á íslenska söngarfinum. Sumartónleikar í Skálholti eru mikilvægur menningarviðburður sem jafnframt veitir almenningi greiðan aðgang að einum sögufrægasta stað landsins.

Þórbergssetur

Meginhlutverk Þórbergsseturs á Hala í Suðursveit er að kynna líf og verk Þórbergs Þórðarsonar rithöfundar, íslenskan bókmenntaarf og um leið sögu þjóðarinnar. Jafnframt hefur Þórbergssetur frá stofnun, árið 2006, verið öflugt í uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu í Skaftafellssýslum, varðveitt og viðhaldið staðbundinni þekkingu og þjóðlegum menningarverðmætum. Starfið í Þórbergssetri er byggt á faglegum grunni og frá upphafi hefur verið lögð rík áhersla á samstarf við mennta- og menningarstofnanir í héraði og víðar. Sérstaða Þórbergsseturs felst ekki síst í þekkingu heimamanna á náttúru og umhverfi, auk sagnahefðar sem byggir á einstakri færni og framsetningu á íslenskri tungu í verkum eins merkasta rithöfundar þjóðarinnar.

Eyrarrósina 2010 hlaut tónlistarhátíðin Bræðslan á Borgarfirði eystra.

Aðrir Eyrarrósarhafar eru:

Landnámssetrið í Borgarnesi,

rokkhátíðin Aldrei fór ég suður,

Strandagaldur á Hólmavík,

LungA, listahátíð ungs fólks á Austurlandi og

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×