Innlent

Katrín tekur vel í landakaup

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, segir vel koma til greina að ríkið taki tilboði Reykjanesbæjar um kaup á landi og jarðauðlindum sem áður voru í eigu HS orku. Með þessu gæti ríkið samið beint við Magma Energy um styttri nýtingartíma á orkuauðlindunum.

Bæjarsstjórn Reykjanesbæjar lagði tilboðið fram í byrjun vikunnar en í því felst að ríkið kaupi land og auðlindir sem HS Orka nýtir til orkuframleiðslu. Formlegt bréf var þess efnis sent forsætisráðherra í gær.

HS orka er nú að mestu í eigu Magma Energy sem þar með hefur nýtingarrétt á orkuauðlindum á Reykjanesi til næstu 65 ára og getur framlengt um 65 ár til viðbótar.

Ekki hefur verið fjallað um hugsanlegt söluverð en það gæti verið á bilinu einn til tveir milljarðar. Iðnaðarráðherra segir að vel komi til greina að taka þessu tilboði.

„Mér finnst að við eigum að skoða það alvarlega. Samkvæmt lögum þá mega opinberir aðilar, hvorki sveitarfélag né ríki selja frá sér auðlindir til einkaaðila þannig að eini markaðurinn með auðlindir er á milli opinberra aðila þannig að það er ekkert óeðlilegt ef þeir vilja selja, að þeir leiti fyrst til ríkisins," segir Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra.

Gangi þetta eftir mun ríkið geta samið beint við Magma Energy um styttri leigutíma.

„Við erum samt með í farvegi að fara í þríhliða viðræður um styttingu á leigutímanum þannig að ég sé svo sem ekki að það eigi að breyta miklu. Ég veit að það er samstarfsvilji hjá Reykjanesbæ og hjá Magma í því máli," segir Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×