Innlent

Kveikt á Friðarsúlunni til minningar um fórnarlömb hryðjuverkaárásanna

Ljós verður tendrað á Friðarsúlunni í Viðey í kvöld til minningar um þá sem létu lífið í hryðjuverkaárásunum í Noregi. Opinber minningarathöfn um fórnarlömbin fór fram í Osló síðdegis í dag.

Með því að tendra ljós friðarsúlunnar vill Reykjavíkurborg senda innilegar samúðarkveðjur til Norðmanna og minnast fórnarlambanna sem týndu lífi í árásunum.

Minningarathöfn fór fram í Spektrum miðstöðinni í Osló síðdegis í dag. Hana sóttu meðal annars þjóðhöfðingjar Noregs, forsetar Íslands og Finnlands og ríkisarfar Danmerkur og Svíþjóðar.

Haraldur fimmti, noregskonungur, var klökkur þegar hann talaði við minningarathöfnina. „Við misstum 77 manneskjur sem vildu verja lífi sínu til að bæta samfélagið sem þær bjuggu í. Við munum heiðra minningu þeirra með því að halda áfram að hlúa að þeim gildum sem voru þeim svo mikilvæg."

Að öllu jöfnu er ekki kveikt á Friðarsúlunni fyrr en 9.október ár hvert, á afmælisdegi John Lennons en í samráði við Yoko Ono var ákveðið að gera undantekningu þar á.

Ljós súlunnar verður tendrað um níuleytið og hægt er að fylgjast með því í beinni útsendingu á vefsíðunni imaginepeace.com. Ljós hennar logar frá sólsetri í kvöld og fram á morgun. Dagskráin í Viðey hefst klukkan hálf níu í kvöld þar sem Ellen Kristjánsdóttir og Eyþór Gunnarsson verða meðal annars með tónlistaratriði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×